Hoppa beint í efnið

Hvað er upprisan?

Hvað er upprisan?

Svar Biblíunnar

 Orðið „upprisa“ í Biblíunni er þýðing á gríska orðinu ana′stasis sem merkir bókstaflega „að standa upp“ eða „standa upp aftur“. Sá sem fær upprisu frá dauðum og endurheimtir líf sitt verður sami einstaklingur og hann var áður. – 1. Korintubréf 15:12, 13.

 Þótt orðið „upprisa“ komi ekki fyrir í Hebresku ritningunum, oft kallaðar Gamla testamentið, kemur hugmyndin þar fram. Fyrir munn Hósea spámanns sagði Guð: „Á ég að leysa þá úr greipum heljar, frelsa þá frá dauða?“ – Hósea 13:14; Jobsbók 14:13–15; Jesaja 26:19; Daníel 12:2, 13

 Hvar verður fólk reist upp til lífs? Sumir fá upprisu til lífs á himnum til að ríkja sem konungar með Kristi. (2. Korintubréf 5:1; Opinberunarbókin 5:9, 10) Biblían kallar þetta ,fyrri upprisuna‘ sem gefur til kynna að önnur upprisa fylgi í kjölfarið. (Opinberunarbókin 20:6; Filippíbréfið 3:11) Síðari upprisan verður til lífs á jörðu. Hún nær til meirihluta þeirra sem fá líf aftur. – Sálmur 37:29.

 Hvernig fær fólk upprisu? Guð gefur Jesú mátt til að reisa fólk til lífs. (Jóhannes 11:25) Jesús mun endurlífga ,alla sem eru í minningargröfunum‘, hvern og einn með sín sérkenni, persónuleika og minningar. (Jóhannes 5:28, 29) Þeir sem fá upprisu til himna fá andalíkama en þeir sem fá upprisu á jörð fá fullkomlega heilbrigðan, jarðneskan líkama. – Jesaja 33:24; 35:5, 6; 1. Korintubréf 15:42–44, 50.

 Hverjir fá upprisu? Biblían segir að „Guð muni reisa upp bæði réttláta og rangláta“. (Postulasagan 24:15) Meðal réttlátra verður trúfast fólk eins og Nói, Sara og Abraham. (1. Mósebók 6:9; Hebreabréfið 11:11; Jakobsbréfið 2:21) Meðal ranglátra verða þeir sem fylgdu ekki mælikvarða Guðs en höfðu ekki tækifæri til að læra um hann og fara eftir honum.

 En þeir sem eru svo illir að þeim er ekki viðbjargandi fá ekki upprisu. Þegar þeir deyja er það endanlegur dauði án vonar um líf á ný. – Matteus 23:33; Hebreabréfið 10:26, 27.

 Hvenær mun upprisan eiga sér stað? Biblían sagði fyrir að upprisan til himna myndi verða við nærveru Krists sem hófst árið 1914. (1. Korintubréf 15:21–23) Upprisan til lífs á jörðinni verður í þúsundáraríki Jesú Krists þegar jörðinni verður breytt í paradís. – Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 20:6, 12, 13

 Hvers vegna er skynsamlegt að trúa á upprisu? Í Biblíunni er að finna níu nákvæmar frásögur um upprisu sem voru staðfestar af sjónarvottum. (1. Konungabók 17:17–24; 2. Konungabók 4:32–37; 13:20, 21; Lúkas 7:11–17; 8:40–56; Jóhannes 11:38–44; Postulasagan 9:36–42; 20:7–12; 1. Korintubréf 15:3–6) Frásagan af því þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum er sérstaklega eftirtektarverð þar sem Lasarus hafði verið dáinn í fjóra daga og Jesús gerði þetta kraftaverk í viðurvist fjölda fólks. (Jóhannes 11:39, 42) Jafnvel andstæðingar Jesú gátu ekki afneitað staðreyndunum og ákváðu því að taka sig saman og drepa bæði Jesú og Lasarus. – Jóhannes 11:47, 53; 12:9–11.

 Biblían sýnir að Guð hefur bæði getu og löngun til að reisa hina dánu til lífs. Hann geymir í takmarkalausu minni sínu nákvæmar upplýsingar um hvern einstakling sem hann ætlar með almætti sínum að reisa upp til lífs. (Jobsbók 37:23; Matteus 10:30; Lúkas 20:37, 38) Guð getur vakið dána til lífs og hann vill það. Biblían lýsir því þegar upprisan verður og segir um Guð: „Þú þráir að sjá verk handa þinna.“ – Jobsbók 14:15, NW.

Ranghugmyndir um upprisuna

 Ranghugmynd: Upprisan sameinar sál og líkama.

 Staðreynd: Biblían kennir að sálin sé maðurinn í heild en ekki hluti af honum sem lifir af dauðann. (1. Mósebók 2:7; Esekíel 18:4, Biblían 1981.) Maður sem fær upprisu sameinast ekki sál sinni, hann er endurskapaður sem lifandi sál.

 Ranghugmynd: Sumt fólk fær upprisu og er síðan eytt strax aftur.

 Staðreynd: Biblían segir að ,þeir sem hafa ástundað hið illa rísi upp til dóms.‘ (Jóhannes 5:29) En þeir verða dæmdir eftir því sem þeir gera eftir upprisuna en ekki því sem þeir gerðu áður. Jesús sagði: „Hinir dánu heyra rödd sonar Guðs og þeir sem hafa hlustað og hlýtt munu lifa.“ (Jóhannes 5:25) Þeir sem ,hlusta og hlýða‘ því sem þeir læra eftir að hafa fengið upprisu fá nöfn sín skrifuð í „bók lífsins“. – Opinberunarbókin 20:12, 13.

 Ranghugmynd: Sá sem fær upprisu fær nákvæmlega sama líkama og hann hafði áður en hann dó.

 Staðreynd: Eftir að maður deyr rotnar líkami hans og hverfur. – Prédikarinn 3:19, 20.