Hoppa beint í efnið

Hvað er sálin?

Hvað er sálin?

Svar Biblíunnar

 Orðið „sál“ í Biblíunni er þýðing á hebreska orðinu nefes og gríska orðinu psykhe′. Hebreska orðið merkir bókstaflega ,vera sem andar‘ og gríska orðið merkir ,lifandi vera‘. a Sálin er veran í heild, ekki eitthvað innra með henni sem lifir af líkamsdauðann. Skoðum hvernig Biblían kennir að sál mannsins sé maðurinn í heild:

Adam var ekki gefin sál, hann ,varð lifandi sál‘.

  •   Biblían segir að þegar Jehóva Guðs skapaði fyrsta manninn, Adam, hafi hann ,orðið lifandi sál‘. (1. Mósebók 2:7, Biblían 1981) Adam fékk ekki sál, hann varð lifandi sál, persóna.

Er sálin ódauðleg?

 Nei, sálin getur dáið. Mörg biblíuvers sýna fram á að sálin er dauðleg. Skoðum nokkur dæmi:

  •   „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ – Esekíel 18:4, 20, Biblían 1981.

  •   „Þegar lambið rauf fimmta innsiglið sá ég undir altarinu sálir þeirra sem höfðu verið drepnir vegna orðs Guðs og vegna þess að þeir höfðu borið vitni.“ – Opinberunarbókin 6:9.

  •   Orðalagið „dáin sál“ er í sumum biblíuversum notað um líkama dáinnar manneskju. (3. Mósebók 21:11; 4. Mósebók 6:6, Nýheimsþýðingin, neðanmáls) Margar biblíuþýðingar nota orð eins og „lík“, „dáinn líkami“ eða „dáin persóna“ í þessum versum en upprunalega hebreska orðið er nefes eða „sál“.

„Sál“ getur þýtt „líf“

 Í Biblíunni er orðið „sál“ einnig samheiti fyrir orðið „líf“. Í Jobsbók 33:22 er til dæmis hebreska orðið fyrir sál (nefes) þýtt „líf“ í Biblíunni frá 2010 en „sál“ í Biblíunni frá 1981. Á frummálum Biblíunnar kemur í samræmi við þetta fram að sál mannsins, eða lífinu, getur verið ógnað, hún getur glatast. – 2. Mósebók 4:19; Dómarabókin 9:17; Filippíbréfið 2:30.

 Þessi notkun orðsins „sál“ hjálpar okkur að skilja biblíuvers sem samkvæmt sumum biblíuþýðingum segja að sálin „fari úr“ einhverjum. (1. Mósebók 35:18) Þetta myndmál þýðir að persónan deyr. Biblían frá 1981 notar hér orðalagið „í andlátinu“.

Hvaðan kemur trúin á ódauðlega sál?

 Trúfélög í kristna heiminum sem trúa á ódauðlega sál byggja þá trú ekki á Biblíunni heldur Grískri heimspeki til forna. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Þegar Biblían talar um sálina á hún við verur sem draga andann og sálin skiptist ekki í andahluta og efnislegan líkama. Hugmyndir kristninnar um skiptingu sálar og líkama eiga uppruna sinn hjá Grikkjum til forna.“

 Guð umber ekki að því sem hann kennir sé blandað saman við hugmyndir manna, eins og til dæmis trúna á ódauðlega sál. Biblían varar við: „Gætið þess að enginn fjötri ykkur með heimspeki og innantómum blekkingum sem byggjast á erfðavenjum manna.“ – Kólossubréfið 2:8.

a Sjá The New Brown, Driver, and Briggs Hebrew and English Lexicon of the Old Testament, bls. 659 og Lexicon in Veteris Testamenti Libros bls. 627. Margir biblíuþýðendur þýða orðin nefes og psykhe′ á mismunandi hátt eftir samhengi sem „sál“, „líf“, „persónu“, „veru“ eða „líkama“.