Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hamfarir heyra brátt sögunni til

Hamfarir heyra brátt sögunni til

HVERNIG myndir þú bregðast við ef einhver segði þér að brátt heyri hamfarir sögunni til? Þú myndir kannski hugsa með þér að honum geti ekki verið alvara og hann sé ekki í tengslum við veruleikann því að náttúruhamfarir séu óumflýjanleg staðreynd.

Jafnvel þótt ekkert lát virðist vera á náttúruhamförum er full ástæða til að ætla að það eigi eftir að breytast. Þær breytingar verða þó ekki fyrir tilstuðlan manna. Mennirnir skilja ekki til fulls hvernig og hvers vegna ýmislegt gerist í náttúrunni og geta þaðan af síður haft stjórn á því. Salómon konungur í Forn-Ísrael var þekktur fyrir visku og einstaka athyglisgáfu. Hann skrifaði: „Maðurinn getur ekki skilið til fulls allt verk Guðs, það verk sem gerist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gerir sér far um að leita fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn segist þekkja það fær hann ekki skilið það til fulls heldur.“ – Prédikarinn 8:17.

Ef mennirnir geta ekki haft hemil á náttúruhamförum, hver getur það þá? Í Biblíunni er sagt að skaparinn eigi eftir að koma slíkum breytingum á. Það var hann sem myndaði öll vistkerfi jarðarinnar, svo sem hringrás vatnsins. (Prédikarinn 1:7) Guð býr yfir ótakmörkuðum mætti ólíkt mönnunum. Þessu til sönnunar sagði Jeremía spámaður: „Drottinn minn og Guð. Þú hefur gert himin og jörð með miklum mætti þínum og útréttum armi. Ekkert er þér um megn.“ (Jeremía 32:17) Þar sem Guð myndaði jörðina og öll náttúruöflin er rökrétt að ætla að hann geti haft stjórn á öllu, þannig að fólk geti búið á jörðinni við frið og öryggi. – Sálmur 37:11; 115:16.

Hvernig mun Guð þá koma á nauðsynlegum breytingum? Þú manst eflaust eftir því að í annarri greininni í þessari greinaröð kom fram að þeir ógnvænlegu atburðir, sem eiga sér stað á jörðinni á okkar dögum, eru merki um að „veröldin [sé] að líða undir lok“. Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ (Matteus 24:3; Lúkas 21:31) Ríki Guðs, sem er himnesk stjórn hans, mun koma miklum breytingum til leiðar á jörðinni og jafnvel hafa stjórn á náttúruöflunum. Þótt Jehóva Guð hafi vald til að gera þetta sjálfur hefur hann kosið að fela syni sínum þetta verkefni. Spámaðurinn Daníel sagði um hann: „Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum.“ – Daníel 7:14.

Sonur Guðs, Jesú Kristur, hefur fengið tilskilið vald til að framkvæma þær breytingar sem þarf til að gera jörðina að yndislegum stað. Þegar Jesús var hér á jörð, fyrir um 2000 árum, gaf hann örlitla innsýn í vald sitt yfir náttúruöflunum. Eitt sinn þegar hann var á báti á Galíleuvatni ásamt lærisveinum sínum „brast á stormhrina mikil og féllu öldurnar inn í bátinn svo við lá að hann fyllti“. Lærisveinarnir fylltust skelfingu. Þeir óttuðust um líf sitt og leituðu til Jesú. Hvernig brást hann við? Hann „hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ,Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn“. Lærisveinarnir urðu furðu lostnir og spurðu: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“ – Markús 4:37-41.

Jesús hefur síðan verið hafinn upp á andlegt tilverusvið og fengið enn meiri mátt og völd. Sem konungur í ríki Guðs hefur hann umboð og getu til að koma á nauðsynlegum breytingum svo að mennirnir geti lifað við frið og öryggi á jörðinni.

Eins og við höfum séð eru ýmsar ógnir og náttúruhamfarir af mannavöldum. Græðgi og eigingirni veldur því oft að afleiðingarnar verða alvarlegri en ella. Hvað mun ríki Guðs aðhafast varðandi þá sem halda slíku áfram og neita að breyta sér? Í Biblíunni er sagt að „Drottinn Jesús [muni] opinberast af himni með máttugum englum sínum. Hann kemur í logandi eldi og hegnir þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ Já, hann mun „eyða þeim sem jörðina eyða“. – 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8; Opinberunarbókin 11:18.

Eftir það mun Jesús Kristur, sem „konungur konunga“, hafa fullt vald yfir náttúruöflunum. (Opinberunarbókin 19:16) Hann sér til þess að þegnar ríkis Guðs verði aldrei fyrir neinni ógæfu. Hann notar vald sitt til að hafa stjórn á veðurfari, þannig að veðráttan og hringrás árstíðanna verði mannkyninu til góðs. Þá rætist fyrirheitið sem hann gaf þjóð sinni endur fyrir löngu: „Ég [mun] gefa ykkur regn á réttum tíma svo að jörðin gefi af sér afurðir sínar og trén úti á völlunum beri ávöxt.“ (3. Mósebók 26:4) Fólk getur þá reist sér hús án þess að eiga á hættu að missa það í einhverjum hamförum: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.“ – Jesaja 65:21.

Hvað þarft þú að gera?

Þú ert eflaust í hópi þeirra sem langar til að búa í heimi þar sem náttúruhamfarir heyra sögunni til. En hvað þarft þú að gera til að fá að vera í slíkum heimi? Þeir „sem þekkja ekki Guð“ og „hlýða ekki fagnaðarerindinu“ fá ekki að búa í komandi heimi sem verður laus við allar hörmungar. Því er ljóst að nú er nauðsynlegt að afla sér þekkingar um Guð og styðja stjórnina sem hann hefur sett yfir jörðina. Guð setur það skilyrði að við fræðumst um hann og hlýðum fagnaðarerindinu um ríkið sem hann hefur stofnsett fyrir milligöngu sonar síns.

Besta leiðin til að öðlast þessa þekkingu er að kynna sér gaumgæfilega efni Biblíunnar. Þar er að finna leiðbeiningar um hvað við þurfum að gera til að fá að lifa í öruggu umhverfi undir stjórn ríkis Guðs. Hvernig væri að biðja votta Jehóva að aðstoða þig við að kynnast boðskap Biblíunnar? Þeir eru boðnir og búnir til þess. Eitt er víst að ef þú leggur þig fram við að kynnast Guði og lifa í samræmi við fagnaðarerindið mun rætast á þér það sem segir í Orðskviðunum 1:33: „Sá sem hlýðir á mig mun búa óhultur og öruggur og engri ógæfu kvíða.“