Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Guð að refsa okkur?

Er Guð að refsa okkur?

„Ég lít svo á að [þetta] sé tembatsu (refsing æðri máttarvalda) þótt ég finni til með fórnarlömbum hamfaranna.“ Þannig komst þekktur japanskur stjórnmálamaður að orði eftir að jarðskjálfti, sem mældist 9,0 að styrkleika, og flóðbylgja í kjölfar hans reið yfir landið í mars 2011.

Rúmlega 220.000 manns létu lífið í jarðskjálftanum, sem reið yfir Haítí í janúar 2010. Þekktur sjónvarpsprédikari hélt því fram að íbúarnir hefðu „gert sáttmála við djöfulinn“ og þyrftu að „snúa sér aftur til guðs“.

„Guð vill vekja deyfða og skeytingarlausa samvisku okkar,“ sagði kaþólskur prestur þegar 79 manns tróðust undir mannþröng í Maníla á Filippseyjum. Þarlent dagblað skýrði frá því að „21 prósent fullorðinna tryðu því að Guð gæfi reiði sinni lausan tauminn með skriðum, fellibyljum og öðrum hamförum“ sem skella iðulega á landinu.

SÚ SKOÐUN að Guð noti náttúruhamfarir til að refsa vondu fólki er ekki ný af nálinni. Árið 1755 fórust um 60.000 manns af völdum jarðskjálfta, eldsvoða og fljóðbylgju sem reið yfir Lissabon í Portúgal. Þá varpaði hinn kunni heimspekingur Voltaire fram þessari spurningu: „Var meira um lesti í hinni föllnu Lissabon heldur en í París, þar sem nautnalífið var í algleymingi?“ Milljónir manna hafa velt því fyrir sér hvort Guð beiti náttúruhamförum til að refsa fólki.

Í ljósi alls þessa ættum við að velta eftirfarandi spurningum fyrir okkur: Beitir Guð virkilega náttúruhamförum til að refsa fólki? Eru þessir hörmulegu atburðir, sem hafa dunið yfir á undanförnum árum, refsing Guðs?

Sumir sem vilja skella skuldinni á Guð hafa bent á frásögur í Biblíunni þar sem Guð notaði náttúruöflin til að valda eyðingu. (1. Mósebók 7:17-22; 18:20; 19:24, 25; 4. Mósebók 16:31-35) En þegar þessar frásögur eru athugaðar kemur í ljós að þrjú meginatriði einkenna þær allar. Í fyrsta lagi var fólk varað við fyrir fram. Í öðru lagi farast bæði góðir og illir í náttúruhamförum nú á tímum, en sú var ekki raunin þegar Guð olli eyðingu. Þeim einum var eytt sem voru forhertir í illsku sinni og neituðu að hlusta á viðvaranir. Og í þriðja lagi sá Guð til þess að saklaust fólk kæmist undan. – 1. Mósebók 7:1, 23; 19:15-17; 4. Mósebók 16:23-27.

Það bendir ekkert til þess að Guð standi að baki þeim ótalmörgu náttúruhamförum sem hafa sett líf milljóna manna á annan endann undanfarin ár. Hvað býr þá að baki greinilegri fjölgun slíkra hamfara? Hvernig er best að bregðast við? Rennur sú stund einhvern tíma upp að náttúruhamfarir heyri sögunni til? Svörin er að finna í næstu greinum.