Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uggvænlegasti sjúkdómur 19. aldarinnar

Uggvænlegasti sjúkdómur 19. aldarinnar

Uggvænlegasti sjúkdómur 19. aldarinnar

Árið 1854 geisaði enn einn kólerufaraldurinn í Lundúnum — en kólera er iðrasýking sem einkennist af miklum niðurgangi og alvarlegri vökvaþurrð. Sjúkdómurinn breiddist út með ógnarhraða. Margir sem vöknuðu frískir að morgni voru látnir að kvöldi. Enga lækningu var að fá.

ÞETTA var uggvænlegasti sjúkdómur aldarinnar. Orsakir hans voru mönnum ráðgáta. Sumir héldu að fólk gæti smitast af kóleru með því að anda að sér óþefnum af rotnandi lífrænum úrgangi. Enda engin furða að það hvarflaði að fólki. Megna fýlu lagði frá ánni Thames sem bugðaðist í gegnum Lundúnir. En var það óþefurinn í loftinu sem bar sjúkdóminn?

Fimm árum áður hafði læknir að nafni John Snow slegið því fram að kólera stafaði af menguðu vatni en ekki menguðu lofti. Annar læknir, William Budd að nafni, áleit að sjúkdómurinn bærist með nokkurs konar sveppagróðri.

John Snow sannreyndi kenningu sína í kólerufaraldrinum árið 1854 með því að kynna sér lifnaðarhætti þeirra sem smituðust í Soho-hverfinu í Lundúnum. Hann velti því fyrir sér hvað þetta fólk hefði átt sameiginlegt. Niðurstaða rannsóknarinnar kom á óvart. Allir sem smituðust af kóleru á þessu svæði höfðu sótt drykkjarvatn í sömu vatnsdæluna. Vatnið þar var blandað kólerumenguðu skolpi. *

Þetta sama ár urðu líka önnur þáttaskil í læknisfræðinni þegar ítalski vísindamaðurinn Filippo Pacini gaf út grein sem fjallaði um örveruna sem veldur kóleru. Rannsóknum hans var lítill gaumur gefinn og hið sama má segja um uppgötvanirnar sem John Snow og Willim Budd gerðu. Kóleruplágan herjaði áfram — það er að segja allt til ársins 1858.

„Óþefurinn mikli“

Breska þingið hafði lítið sinnt um að leggja nýja skolpveitu til að hreinsa ána Thames, en vegna hitabylgjunnar sumarið 1858 var hert á aðgerðum. Áin rann fram hjá þinghúsinu og fýlan frá henni var svo yfirþyrmandi að stjórnmálamennirnir neyddust til að hengja fyrir gluggana gardínur, sem hafði verið dýft í sótthreinsunarefni, til að reyna að kæfa lyktina. „Óþefurinn mikli“, eins og ástandið var seinna kallað, þrýsti á að þingið gerði eitthvað í málinu. Það liðu ekki nema 18 dagar þar til ákveðið var að ráðast í framkvæmdir við lagningu nýrrar skolpveitu.

Risastór holræsi voru lögð fyrir skolpið svo að það bærist ekki út í ána. Síðan var skolpinu veitt austur fyrir borgina, en þar var því að lokum hleypt út í sjó þegar byrjaði að falla út. Árangurinn varð alveg ótrúlegur. Þegar öll borgin hafði verið tengd við nýja fráveitukerfið heyrðu kólerufaraldrar sögunni til.

Nú efaðist enginn lengur: Kólera stafaði ekki af óþef heldur af menguðu vatni eða menguðum matvælum. Það var líka ljóst að forvarnir fólust í almennu hreinlæti.

Lög sem voru á undan sinni samtíð

Mörg þúsund árum áður en kólerufaraldrar geisuðu í Lundúnum leiddi Móse Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi. Þjóðin reikaði um Sínaíeyðimörkina í 40 ár. Samt voru Ísraelsmenn lausir við farsóttir eins og kóleru. Hvernig var það mögulegt?

Þjóðinni var uppálagt að grafa allan saur á afviknum stað utan við tjaldbúðirnar til þess að íbúðarsvæðið væri hreint og vatnsból menguðust ekki. Þessi fyrirmæli eru skráð í 5. Mósebók 23:12 og 13 í Biblíunni en þar segir:

„Þú skalt hafa afvikinn stað utan við herbúðirnar þar sem þú getur gengið erinda þinna. Þú skalt hafa skóflu í farangri þínum og þegar þú þarft að setjast niður úti við skaltu grafa með henni holu og moka síðan yfir hægðir þínar.“

Þessar einföldu leiðbeiningar veittu Ísraelsmönnum vörn gegn sjúkdómum sem herjuðu á nágrannaþjóðirnar. Svipaðar hreinlætisvenjur hafa líka bjargað mannslífum síðustu árin. * Lítum á dæmi.

,Það kom aldrei upp farsótt hjá okkur‘

Upp úr 1970 neyddust margir vottar Jehóva í Malaví til að flýja land sökum mikilla ofsókna. Þeir leituðu hælis í nágrannaríkinu Mósambík. Yfir 30.000 karlar, konur og börn settust þar að í tíu flóttamannabúðum. Eins og kunnugt er vilja sjúkdómar, sem berast með menguðu vatni, breiðast út í flóttamannabúðum. En hvernig vegnaði vottunum við þessar aðstæður?

Lemon Kabwazi bjó ásamt 17.000 vottum í stærstu flóttamannabúðunum í Mlangeni. Hann segir svo frá: „Búðunum var alltaf haldið hreinum. Kamarholur voru grafnar fyrir utan búðirnar en enginn mátti grafa slíka holu til eigin nota innan búðanna. Sorpgryfjur voru líka grafnar fjarri búðunum. Sjálfboðaliðar sáu um allt sem viðkom sorpi og hreinlæti. Þeir gættu þess meðal annars að vatnið úr brunnunum væri hreint, en brunnar voru á öðru svæði fyrir utan búðirnar. Þótt við byggjum þröngt fórum við eftir hreinlætisreglum Biblíunnar. Þar af leiðandi kom aldrei upp farsótt hjá okkur og enginn fékk kóleru.“

Því miður eru íbúðarhús sums staðar í heiminum enn ekki tengd viðunandi skolpveitum. Daglega deyja um 5.000 börn af sjúkdómum sem stafa af saurmengun.

Menn hafa vissulega náð umtalsverðum árangri í sambandi við frágang á sorpi og skolpi og hægt er að fyrirbyggja kóleru og aðra slíka sjúkdóma. En Biblían heldur þeirri von á lofti að brátt heyri allir sjúkdómar sögunni til. Í Opinberunarbókinni 21:4 er lýst hvernig lífið verður undir stjórn Guðsríkis: „Dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Biblían lofar líka: „Enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ — Jesaja 33:24.

Frekari upplýsingar um það sem ríki Guðs mun gera fyrir mannkynið er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían? í 3. og 8. kafla. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Neðanmáls]

^ Enda þótt vatnssalerni hefðu verið komin í notkun árið 1854 var fráveitukerfið úrelt og saur flaut eftir göturæsum og skolplögnum beint út í ána Thames — en þaðan kom mestallt drykkjarvatnið.

^ Þar sem kólera smitast með menguðu vatni eða menguðum matvælum er grundvallaratriði að gæta varúðar í sambandi við allt sem maður leggur sér til munns. Gera þarf nauðsynlegar varúðarráðstafanir og hreinsa drykkjarvatn og sjóða mat nægilega lengi.

[Innskot á bls. 11]

Áin Thames bugðaðist um Lundúnir og bar með sér kólerumengað skolp, eins og sjá má á mörgum myndum frá þessum tíma.

[Mynd á bls. 12]

Rúmlega 30.000 karlar, konur og börn settust að í tíu flóttamannabúðum í Mósambík. Búðunum var alltaf haldið hreinum.

[Rétthafi myndar á bls. 10]

Death on Thames: © Mary Evans Picture Library. Kort: University of Texas Libraries.