Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúleysingjar í krossferð

Trúleysingjar í krossferð

Trúleysingjar í krossferð

NÝ KYNSLÓÐ trúleysingja er komin fram á sjónarsviðið. Þeir eru kallaðir nýju trúleysingjarnir og gera sig ekki ánægða með að halda skoðunum sínum út af fyrir sig. Þeir eru í krossferð og „reyna með reiði, ákafa og virkum aðgerðum að snúa trúarlega sinnuðu fólki á sitt band“, skrifar dálkahöfundurinn Richard Bernstein. Þeir láta ekki einu sinni efasemdamenn í friði. Það er enginn vafi í hugum nýju trúleysingjanna: Guð er hreinlega ekki til. Búið mál.

„Heimurinn þarf að vakna af þeirri löngu martröð sem trúin er,“ segir nóbelsverðlaunahafinn Steven Weinberg. „Við vísindamenn ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr áhrifum trúarbragðanna, og til langs tíma litið gæti það orðið merkasta framlag okkar til siðmenningarinnar.“ Eitt af vopnunum, sem þeir nota í baráttu sinni, er hið ritaða orð og það virðist vekja töluverðan áhuga því að sumar af bókum nýju trúleysingjanna eru metsölubækur.

Trúarbrögðin hafa lagt lóð á vogarskálar nýju trúleysingjanna því að fólki ofbýður öfgarnar, hryðjuverkin og átökin sem mannkynið hefur mátt þola af völdum trúarbragðanna. „Trúin eitrar allt,“ segir þekktur trúleysingi. Og ,eitrið‘ er sagt vera fólgið í trúarhugmyndum almennt, ekki aðeins öfgafullum skoðunum. Nýju trúleysingjarnir segja að það þurfi að afhjúpa undirstöðukenningarnar, snúa baki við þeim og taka í staðinn upp skynsamlega hugsun byggða á staðreyndum og rökum. Að því er trúleysinginn Sam Harris segir þarf fólk að vera óhrætt við að tala opinskátt um „öll þau ósköp af lífshættulegum þvættingi“ sem er að finna í Biblíunni og Kóraninum. „Pólitísk rétthugsun er munaður sem við getum ekki leyft okkur lengur,“ bætir hann við.

En þó að nýju trúleysingjarnir átelji trúarbrögðin bera þeir lotningu fyrir vísindunum. Sumir segja jafnvel að þau afsanni tilvist Guðs. En er það svo? Geta þau það? Harris heldur því fram að „í fyllingu tímans“ muni „annar aðilinn gersigra í deilunni en hinn aðilinn bíða algeran ósigur“.

Hvor aðilinn heldurðu að gangi með sigur af hólmi í fyllingu tímans? Um leið og þú veltir því fyrir þér ættirðu að spyrja: Er sjálfgefið að það sé skaðlegt að trúa á skapara? Væri heimurinn betri ef allir væru trúlausir? Við skulum kanna hvað nokkrir virtir vísindamenn og heimspekingar hafa sagt um trúleysi, trúarbrögð og vísindi.