Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn von um bjartari framtíð

Sönn von um bjartari framtíð

 Ert þú bjartsýnn á framtíðina? Margir reyna að vera jákvæðir þrátt fyrir alvarleg vandamál sem blasa við. En getum við vænst þess að ástandið lagist? Já! Biblían gefur okkur trausta von um betri framtíð.

 Hvaða von gefur Biblían?

 Biblían staðfestir að mannkynið standi frammi fyrir gríðarlegum vandamálum. En hún lofar að þessi vandamál muni ekki hrjá okkur um ókomna framtíð. Skoðum fáein dæmi.

  •   Vandamál: Húsnæðisleysi

     Hvað segir Biblían? „Menn munu reisa hús og búa í þeim.“ – Jesaja 65:21, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Fólk mun eiga eigið húsnæði.

  •   Vandamál: Atvinnuleysi og fátækt

     Hvað segir Biblían? „Mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar.“ – Jesaja 65:22, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Allir munu hafa tilgangsríka, ánægjulega og gefandi atvinnu.

  •   Vandamál: Óréttlæti

     Hvað segir Biblían? „Höfðingjar stjórna samkvæmt lögum.“ – Jesaja 32:1, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Þjóðernislegt, félagslegt og efnahagslegt óréttlæti verður upprætt um alla framtíð. Komið verður fram við alla af sanngirni.

  •   Vandamál: Vannæring og hungur

     Hvað segir Biblían? „Gnóttir korns verða á jörðinni, jafnvel á fjallatindunum vex það í ríkum mæli.“ – Sálmur 72:16.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Allir munu hafa nóg af hollum mat. Enginn fer svangur í háttinn eða þjáist vegna vannæringar.

  •   Vandamál: Glæpir og ofbeldi

     Hvað segir Biblían? „Þá munu menn sitja óhræddir, hver undir sínum vínviði eða fíkjutré.“ – Míka 4:4, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Allir verða öruggir vegna þess að vondir menn verða ekki lengur til og „hinir réttlátu munu erfa jörðina“. – Sálmur 37:10, 29.

  •   Vandamál: Stríð

     Hvað segir Biblían? „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ – Jesaja 2:4, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Friður verður um alla jörð. (Sálmur 72:7) Enginn mun syrgja ástvin sem hefur fallið í stríði og enginn verður flóttamaður vegna stríðs.

  •   Vandamál: Veikindi og sjúkdómar

     Hvað segir Biblían? „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er veikur‘“ – Jesaja 33:24, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Fólk mun ekki lengur veikjast eða þjást vegna fötlunar. (Jesaja 35:5, 6) Biblían lofar því jafnvel að ‚dauðinn verði ekki til framar‘. – Opinberunarbókin 21:4.

  •   Vandamál: Umhverfiseyðing

     Hvað segir Biblían? „Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri.“ – Jesaja 35:1, Biblían 2010.

     Það sem það þýðir í framtíðinni: Öll jörðin verður paradís fyrir mennina, eins og Guð áformaði upphaflega. – 1. Mósebók 2:15; Jesaja 45:18.

 Er vonin sem Biblían gefur of góð til að vera sönn?

 Það er skiljanlegt að þér kunni að finnast það. En við hvetjum þig til að rannsaka betur það sem Biblían segir um framtíðina. Hvers vegna? Loforð Biblíunnar eru frábrugðin loforðum og spám manna. Loforð Biblíunnar eru frá Guði. Það gerir gæfumuninn vegna þess að:

  •   Guð er áreiðanlegur. Biblían segir að Guð ‚geti ekki logið‘. (Títusarbréfið 1:2) Hann er þar að auki sá eini sem getur sagt fyrir um framtíðina. (Jesaja 46:10) Í Biblíunni eru fjölmörg dæmi sem sanna að spádómar Guðs rætast alltaf. Sjá myndbandið Hvernig getum við verið viss um að Biblían sé áreiðanleg? til að fá frekari upplýsingar.

  •   Guð hefur mátt til að leysa vandamál okkar. Biblían segir að Guð hafi mátt til að gera „allt sem hann vill“. (Sálmur 135:5, 6) Ekkert getur með öðrum orðum stöðvað Guð að uppfylla loforð sín. Og það sem meira er, Guð vill hjálpa okkur vegna þess að hann elskar okkur. – Jóhannes 3:16.

 Þú gætir réttilega velt því fyrir þér hvers vegna við þurfum að takast á við svona mörg vandamál fyrst Guð vill hjálpa okkur og getur það. Til að fá botn í það geturðu horft á myndbandið Af hverju leyfir Guð þjáningar?

 Hvernig rætist þessi von?

 Guð notar ríki sitt, himneska stjórn, til að uppfylla loforð sín. Hann hefur útnefnt Jesú Krist sem stjórnanda ríkisins og gefið honum vald til að annast jörðina og fólkið á henni. Þegar Jesús var á jörð læknaði hann sjúka, gaf hungruðum að borða, hafði stjórn á veðri og vindum og reisti jafnvel dána upp frá dauðum. (Markús 4:39; 6:41–44; Lúkas 4:40; Jóhannes 11:43, 44) Hann sýndi þannig hvað hann myndi gera sem konungur Guðsríkis.

 Horfðu á myndbandið Hvað er Guðsríki? til að sjá meira um það hvernig Guðsríki kemur þér að gagni.

 Hvenær verður þessi von að veruleika?

 Bráðlega! Hvernig getum við verið svona viss um það? Biblían sagði fyrir atburði sem sýndu að Guðsríki væri um það bil að taka völdin á jörðinni. (Lúkas 21:10, 11) Ástandið í heiminum kemur heim og saman við það sem Biblían sagði fyrir.

 Lestu greinina „Hvenær mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni?“ til að fá frekari upplýsingar.

 Hvernig getur vonin sem Biblían gefur komið þér nú þegar að gagni?

 Biblíuritari segir að von Biblíunnar sé eins og „akkeri fyrir sálina“. (Hebreabréfið 6:19) Traust von Biblíunnar hjálpar okkur að takast á við vandamálin sem við glímum við rétt eins og akkeri heldur skipi stöðugu í stormi. Von okkar getur hjálpað okkur að hugsa skýrt og vera í tilfinningalegu jafnvægi. Hún stuðlar jafnvel að góðri heilsu. – 1. Þessaloníkubréf 5:8.