Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Móse – kærleiksríkur maður

Móse – kærleiksríkur maður

HVAÐ ER KÆRLEIKUR?

Kærleikur er að láta sér innilega annt um aðra. Kærleiksríkur maður sýnir bæði í orði og verki hvað honum finnst um þá sem eru honum kærir, jafnvel þegar það kostar hann fórnir.

HVERNIG SÝNDI MÓSE KÆRLEIKA?

Hvernig sýndi Móse að hann elskaði Guð? Skoðum það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi 5:3: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans.“ Móse sýndi að hann elskaði Guð með því að hlýða honum. Hann gerði allt sem Guð bað hann um, hvort sem um var að ræða ógnvekjandi verkefni eins og að koma fram fyrir hinn volduga faraó eða verkefni sem virtist fremur einfalt eins og að rétta staf sinn út yfir Rauðahaf. Hann hlýddi Guði hvort sem fyrirmælin voru einföld eða flókin. „Móse gerði í öllu nákvæmlega eins og Drottinn bauð honum.“ – 2. Mósebók 40:16.

Móse lét sér annt um samlanda sína. Ísraelsmönnum var ljóst að Jehóva leiddi þjóðina fyrir milligöngu Móse og því leituðu þeir til hans með margvísleg vandamál. Í Biblíunni segir: „Fólkið stóð frammi fyrir Móse frá morgni til kvölds.“ (2. Mósebók 18:13-16) Ímyndaðu þér hve lýjandi það hlýtur að hafa verið fyrir hann að hlusta klukkutímum saman á Ísraelsmenn segja frá áhyggjum sínum og vandamálum. Hann var engu að síður fús til að hjálpa þeim því að honum þótti vænt um þá.

En Móse lét þó ekki þar við sitja heldur bað líka fyrir þessu fólki sem honum þótti vænt um. Hann bað meira að segja fyrir þeim sem komu illa fram við hann. Til dæmis þegar Mirjam, systir hans, gagnrýndi hann sló Jehóva hana holdsveiki. Móse gladdist þó ekki yfir því að henni var refsað heldur bað henni strax vægðar og sagði: „Æ, Guð! Gjör hana aftur heila!“ (4. Mósebók 12:13, Biblían 1981) Það var vegna kærleika sem Móse var meira umhugað um velferð annarra en eigin tilfinningar.

HVAÐ LÆRUM VIÐ?

Við getum líkt eftir Móse með því að dýpka kærleika okkar til Guðs. Kærleikurinn knýr okkur til að vera „af hjarta hlýðin“ og halda fúslega boðorð hans. (Rómverjabréfið 6:17) Jehóva gleðst þegar við hlýðum honum af öllu hjarta. (Orðskviðirnir 27:11) Það er einnig sjálfum okkur til góðs. Þegar við þjónum Guði af öllu hjarta gerum við ekki aðeins það sem rétt er heldur höfum við líka yndi af því að gera það. – Sálmur 100:2.

Við getum einnig líkt eftir Móse með því að sýna öðrum óeigingjarnan kærleika. Þegar vinir eða fjölskyldumeðlimir leita til okkar með áhyggjur sínar knýr kærleikurinn okkur til að (1) veita þeim óskipta athygli, (2) sýna þeim hluttekningu, það er að segja að finna til með þeim og (3) fullvissa þau um að okkur standi ekki á sama.

Líkt og Móse getum við beðið fyrir ástvinum okkar. Stundum finnst okkur við lítils megnug þegar þeir trúa okkur fyrir vandamálum sínum. Við segjum kannski: „Mér þykir leitt að geta ekki hjálpað þér meira. Það eina sem ég get gert er að biðja fyrir þér.“ En mundu að „kröftug bæn réttláts manns megnar mikið“. (Jakobsbréfið 5:16) Eftir að hafa hlustað á bænir okkar gerir Jehóva kannski eitthvað fyrir vin okkar sem hann hefði að öðrum kosti ekki gert. Hvað gæti því verið betra en að biðja fyrir ástvinum okkar? *

Ertu ekki sammála því að við getum lært margt af Móse? Þótt hann hafi aðeins verið venjulegur maður sýndi hann trú, auðmýkt og kærleika með einstökum hætti. Þegar við leitumst við að líkja æ betur eftir honum er það bæði okkur og öðrum til góðs. – Rómverjabréfið 15:4.

^ gr. 8 Ef við viljum að Guð heyri bænir okkar þurfum við að leggja okkur fram um að fylgja lögum hans. Nánari upplýsingar er að finna í 17. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.