Vissir þú?
Vissir þú?
Af hverju höfðu Gyðingar mikinn áhuga á ættartölum?
▪ Ættarskrár voru nauðsynlegar til þess að sýna fram á hvernig ættflokkar og fjölskyldur tengdust. Þær voru einnig nauðsynlegar við skiptingu landsvæðis og þegar þurfti að skipta arfi milli manna. Ætterni hins fyrirheitna Messíasar var sérstaklega þýðingarmikið. Gyðingum var vel kunnugt um að Messías ætti að vera af Júdaættkvísl, nánar tiltekið af ætt Davíðs. – Jóhannes 7:42.
Fræðimaðurinn Joachim Jeremias bendir enn fremur á að „þar sem embætti presta og Levíta gekk í erfðir . . . skipti öllu máli að ættleggurinn héldist algerlega hreinn“. Þess var krafist að ísraelskar konur, sem giftust prestum, sýndu fram á af hvaða ætt þær væru svo að prestastéttin héldist „hrein og óspillt“. Á dögum Nehemía voru heilu Levítafjölskyldurnar sviptar embætti eftir að þær „leituðu nafna sinna í ættartölunum en . . . þau fundust ekki“. – Nehemíabók 7:61-65.
Í Móselögunum var auk þess kveðið á um að ekkert „afkvæmi blandaðs sambands“ og „enginn Ammóníti eða Móabíti [mætti] vera í söfnuði Drottins“. (5. Mósebók 23:2, 3) Jeremias bætir við að einmitt þess vegna „gegndi enginn maður opinberu embætti nema hann gæti sýnt fram á að hann kæmi af hreinum ættlegg, og það rennir stoðum undir þá ályktun okkar að . . . jafnvel óbreyttur Ísraelsmaður vissi hverra manna hann væri og hverri af kynkvíslunum tólf hann tilheyrði“.
Hvernig tóku Gyðingar saman ættartölur sínar og varðveittu þær?
▪ Guðspjallaritararnir Matteus og Lúkas færðu í letur nákvæma ættartölu Jesú. (Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-38) Aðrar ættarskrár hafa líka varðveist. Í mídras, skýringarriti Gyðinga, er til dæmis sagt um Hillel sem var rabbíni á dögum Jesú: „Ættarskrá fannst í Jerúsalem og í henni stóð að Hillel væri afkomandi Davíðs.“ Gyðingurinn og sagnaritarinn Flavíus Jósefus, sem var uppi á fyrstu öld, segir í ritverki sínu að forfeður sínir hafi verið prestar og að móðir sín hafi verið „af konungsættum“. Hann segist hafa fengið þessar upplýsingar úr „opinberum skrám“.
Í öðru ritverki sagði Jósefus að meðal Gyðinga hafi „áreiðanlegir menn með gott mannorð“ fengið þá miklu ábyrgð að hafa eftirlit með skrám um prestafjölskyldur. Í alfræðibókinni The Jewish Encyclopedia segir: „Svo virðist sem sérstökum embættismanni hafi verið falið að hafa umsjón með þessum skrám og að komið hafi verið á fót rannsóknarrétti í Jerúsalem þar sem hægt var að fá svör við spurningum tengdum ættartölum.“ Gyðingar sem voru ekki prestaættar létu yfirleitt skrásetja sig í heimabæ föður síns. (Lúkas 2:1-5) Það leiddi til þess að til urðu opinber skjalasöfn og það var augljóslega í þessum skjalasöfnum sem guðspjallaritararnir viðuðu að sér heimildum. Sumar fjölskyldur virðast líka hafa haldið eigin ættarskrám til haga.