Coverdale og fyrsta prentaða heildarútgáfa Biblíunnar á ensku
Coverdale og fyrsta prentaða heildarútgáfa Biblíunnar á ensku
BIBLÍAN kom fyrst út á prenti í heild sinni á ensku árið 1535. Sá sem stóð að baki þýðingu hennar lét nafns síns ekki getið. Hann hét Miles Coverdale. Á þessum tíma var vinur hans, William Tyndale, í fangelsi vegna fræðistarfa sinna við biblíuþýðingar. Ári síðar var Tyndale tekinn af lífi.
Þýðing Coverdales var að hluta til byggð á verkum Tyndales. Hvernig tókst Coverdale að koma þýðingu sinni í prentun og komast hjá aftöku þegar aðrir biblíuþýðendur guldu fyrir með lífinu? Hverju áorkaði Coverdale með starfi sínu?
Kveikjan að verkinu
Miles Coverdale fæddist í Yorkshire á Englandi, að öllum líkindum árið 1488. Hann stundaði nám við Cambridgeháskólann og var vígður sem rómversk-kaþólskur prestur árið 1514. Robert Barnes, kennari hans, kveikti hjá honum áhuga á umbótum. Árið 1528 flúði Barnes til meginlands Evrópu. Tólf árum síðar létu forsvarsmenn kirkjunnar brenna þennan umbótarsinna á báli.
Árið 1528 var Coverdale byrjaður að mæla gegn óbiblíulegum kaþólskum siðum í prédikunum sínum í kirkjunni. Hann mótmælti tilbeiðslu líkneskja, skriftum og altarisgöngunni. Hann yfirgaf England vegna þess að líf hans var í hættu og fór til meginlands Evrópu þar sem hann dvaldist í um sjö ár.
Coverdale bjó hjá William Tyndale í Hamborg í Þýskalandi. Þar unnu þeir saman að gerð biblíu sem almenningur gæti lesið en það var einlæg ósk þeirra beggja. Coverdale lærði mikið af Tyndale á þessum tíma um þá list að þýða Biblíuna.
Tími breytinga
Á sama tíma var margt að breytast á Englandi. Hinrik konungur áttundi hafði ögrað yfirvaldi kaþólska páfans í Róm árið 1534. Hann var líka sammála því að gera Biblíuna aðgengilega öllum á enskri tungu. Nokkru síðar tókst Coverdale á við þetta verkefni. Hann var ritsnjall á ensku en hafði ekki þá tungumálakunnáttu sem vinur hans og lærifaðir bjó yfir. Tyndale kunni nefnilega reiprennandi bæði hebresku og grísku. Coverdale gerði endurbætur á þýðingu Tyndales og studdist við latnesku og þýsku þýðingarnar.
Biblía Coverdales var prentuð á meginlandi Evrópu árið 1535, einu ári áður en Tyndale var tekinn af lífi. Hún var tileinkuð Hinrik konungi með nokkuð hástemmdum lofsorðum. Coverdale fullvissaði Hinrik konung um að neðanmálsathugasemdir Tyndales væri ekki að finna í Biblíunni. Þær voru umdeildar meðal annars vegna þess að þær drógu athygli fólks að óbiblíulegum kenningum kaþólsku kirkjunnar. Hinrik konungur veitti þar af leiðandi samþykki sitt fyrir útgáfu Biblíunnar. Straumhvörfin voru hafin.
Biblía Coverdales var svo prentuð á Englandi í tveimur útgáfum í viðbót árið 1537.
Sama ár féllst Hinrik konungur á að leyfa útgáfu biblíu sem kallaðist Matteusarbiblían og sameinaði hún verk Tyndales og Coverdales. Hún var prentuð í Antwerpen.Helsti ráðgjafi konungs, Thomas Cromwell, sá fljótlega þörf á því að fá endurbætta útgáfu af Matteusarbiblíunni og naut þar stuðnings Cranmers erkibiskups af Kantaraborg. Hann kallaði þá aftur á Coverdale og fékk hann til að endurskoða allt handritið. Árið 1539 gaf Hinrik konungur leyfi fyrir þessari nýju útgáfu sem var kölluð Stóra biblían vegna þess hve fyrirferðarmikil hún var. Hann fyrirskipaði að í hverri kirkju skyldi vera til eintak til aflestrar fyrir alla. Þessi biblía fékk ánægjulegar viðtökur um allt land.
Arfleifð Coverdales
Eftir andlát Hinriks konungs áttunda og valdatöku arftaka hans, Játvarðs sjötta, var Coverdale útnefndur biskup í Exeter árið 1551. Hann neyddist hins vegar til að flýja til Danmerkur árið 1553 þegar Margrét drottning tók við af Játvarði en hún var kaþólsk. Seinna fluttist Coverdale til Sviss þar sem hann hélt starfi sínu áfram. Hann gaf einnig út á ensku þrjár útgáfur af „Nýja Testamentinu“, eins og það er oft kallað, með texta á latínu til fróðleiks fyrir presta.
Eitt kom þó á óvart í biblíu Coverdales og það var að hann skyldi fella niður nafn Guðs í myndinni „Jehovah“. Tyndale hafði notað nafn Guðs meira en 20 sinnum í þýðingum sínum á Hebresku ritningunum. J. F. Mozley segir í bók sinni, Coverdale and His Bibles: „Coverdale hafnaði algerlega orðinu [Jehovah] árið 1535.“ Samt sem áður lét hann nafn Guðs, Jehóva, standa þrisvar sinnum í Stóru biblíunni.
Hins vegar var biblía Coverdales sú fyrsta á ensku sem innihélt fjórstafanafnið – nafn Guðs ritað með fjórum hebreskum bókstöfum – og stóð það efst á titilsíðu hennar. Einnig vekur athygli að þetta var fyrsta Biblían þar sem öllum apókrýfubókunum var komið fyrir í viðauka í stað þess að vera raðað mitt á meðal bóka Hebresku ritninganna.
Þýðendur seinna meir notuðu síðan mörg hinna einstöku orða og orðtaka Coverdales. Prófessor S. L. Greenslade bendir til dæmis á að Coverdale hafi smíðað nýtt orð til að ná merkingu hebreska orðsins cheseð og „gera greinarmun á kærleika Guðs til fólks síns og kærleika eða meðaumkunar almennt“. Þetta orð er enn notað í sumum enskum þýðingum Biblíunnar.
Stóra biblía Coverdales „var afraksturinn sem á endanum varð af allri vinnunni við að gera enska biblíu . . . allt frá því að Tyndale hóf þýðingu á Nýja testamentinu,“ segir í bókinni The Bibles of England. Það var í raun þýðing Coverdales sem gerði enskumælandi fólki á hans dögum kleift að lesa Biblíuna.
[Myndir á bls. 11]
Til vinstri: fjórstafanafnið á titilsíðu biblíu frá 1537.
[Rétthafi]
Myndir úr bókinni The Holy Scriptures of the Olde and Newe Testamente With the Apocripha eftir Myles Coverdale.
[Rétthafi myndar á bls. 10]
Úr bókinni Our English Bible: Its Translations and Translators.