Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jafnvel þótt afþreyingariðnaðurinn setji dulspeki fram á aðlaðandi hátt verðum við að átta okkur á hættunni sem stafar af henni.

FORSÍÐUEFNI | DULRÆN FYRIRBÆRI – HVAÐ BÝR AÐ BAKI ÞEIM?

Hvað segir Biblían um dulspeki?

Hvað segir Biblían um dulspeki?

MARGIR efast um að dulspeki eða yfirnáttúruleg fyrirbæri séu nokkuð annað en blekking eða skáldskapur kvikmyndaiðnaðarins. Biblían hefur þó allt annað viðhorf. Hún varar afdráttarlaust við dulspeki. Í 5. Mósebók 18:10-13 segir: „Á meðal ykkar má enginn finnast ... sem leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum.“ Hver er ástæðan? Biblían bætir við: „Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð ... Þú skalt vera óskiptur með Drottni, Guði þínum.“

Hvers vegna fordæmir Biblían allt sem tengist dulspeki?

ÓGEÐFELLDUR UPPRUNI

Í Biblíunni kemur fram að löngu áður en Guð mótaði jörðina hafi hann skapað milljónir andavera, eða engla. (Jobsbók 38:4, 7; Opinberunarbókin 5:11) Allir þessir englar fengu frjálsan vilja – val um að gera rétt eða rangt. Sumir þeirra ákváðu að gera uppreisn gegn Guði, yfirgáfu stöðu sína á himnum og ollu vandamálum hér á jörðinni. Þar af leiðandi varð jörðin „full ranglætis“. – 1. Mósebók 6:2-5, 11; Júdasarbréfið 6.

Biblían bendir á að þessar illu andaverur hafi mikil áhrif á fólk og afvegaleiði milljónir manna. (Opinberunarbókin 12:9) Þeir notfæra sér meðal annars forvitni fólks varðandi framtíðina í þeim tilgangi. – 1. Samúelsbók 28:5, 7; 1. Tímóteusarbréf 4:1.

Stundum virðast yfirnáttúruleg öfl vera fólki til góðs. (2. Korintubréf 11:14) En raunin er sú að illar andaverur vilja blinda huga fólks svo að það kynnist ekki sannleikanum um Guð. – 2. Korintubréf 4:4.

Það er því alls ekki skaðlaus skemmtun að setja sig í samband við illa anda. Sjáum hvað verðandi fylgjendur Jesú gerðu eftir að hafa komist að sannleikanum um slíka iðju: „Allmargir, er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær.“ Þetta gerðu þeir jafnvel þótt bækurnar hafi verið verðmætar. – Postulasagan 19:19.

„Vel má vera að vaxandi trú unglingsstúlkna á galdra sé vegna þeirrar glansmyndar sem dregin er upp af nornum í sjónvarpi, kvikmyndum og bókum.“ – Gallupkönnun meðal unglinga, 2014.

Eins hafa margir nú á dögum ákveðið að halda sig algerlega frá starfsemi og afþreyingu sem á rætur að rekja til dulspeki. Maria * er eitt dæmi um það. Þegar hún var 12 ára gömul virtist hún geta sagt fyrir um óorðna atburði eða hættur. Hún las úr tarotspilum fyrir skólasystkini sín og þar sem spár hennar rættust varð hún heilluð af dulspeki.

Maria hélt að hún hefði fengið gjöf frá Guði sem gerði henni kleift að hjálpa fólki. „Það var samt eitthvað sem truflaði mig,“ segir hún. „Ég gat ómögulega sagt fyrir um mína eigin framtíð þótt mig langaði til þess. Ég gat bara spáð í spilin fyrir aðra.“

Maria fann engin svör við spurningum sínum og bað til Guðs um hjálp. Síðar komst hún í samband við votta Jehóva og fór að kynna sér Biblíuna með hjálp þeirra. Þannig lærði hún að hæfileiki hennar til að spá fyrir um framtíðina var ekki kominn frá Guði. Maria skildi líka að þeir sem vilja vináttu Guðs verða að losa sig við alla hluti sem tengjast dulspeki. (1. Korintubréf 10:21) Þess vegna henti hún öllum ritum og hlutum sem tengdust dulspeki. Núna segir Maria öðrum frá sannleikanum sem hún fann í Biblíunni.

Þegar Michael var unglingur las hann mikið af fantasíum um yfirnáttúrulegar söguhetjur. „Ég hafði gaman af því að setja mig í spor hetja sem voru á mínum aldri og ferðuðust um í ímynduðum heimi,“ segir hann. Smám saman fór Michael að lesa meira af bókum sem fjölluðu um galdra og Satansdýrkun. „Ég las bækur og horfði á kvikmyndir sem fjölluðu um þess konar efni af því að ég var forvitinn,“ viðurkennir hann.

Af biblíunámi sínu sá Michael þó að hann þyrfti að skoða vandlega hvað hann veldi sér til lestrar. „Ég gerði lista yfir allt sem tengdist dulspeki og losaði mig síðan við það,“ segir hann. „Ég dró mikilvægan lærdóm af 1. Korintubréfi 10:31 sem segir: ,Gerið allt Guði til dýrðar.‘ Nú spyr ég mig hvort lesefni mitt sé ,Guði til dýrðar‘. Ef ekki, þá forðast ég það.“

Biblíunni er lýst sem lampa. Það er viðeigandi. Hún upplýsir okkur um hvað dulspeki sé í raun og veru. (Sálmur 119:105) Þar að auki bendir Biblían á þá frábæru framtíðarvon að heimurinn verði laus við áhrif illra andavera. Það verður mikil blessun fyrir mannkynið. Sem dæmi segir í Sálmi 37:10, 11: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna. En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“

^ gr. 10 Nöfnum í greininni hefur verið breytt.