Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HVAÐ VARÐ EIGINLEGA UM AGANN?

Agi sem virkar

Agi sem virkar

UPPELDI er vinna sem tekur á. En ef réttmætur agi er ekki veittur verður vinnan enn erfiðari. Hvers vegna? Ástæðurnar eru að minnsta kosti tvær: (1) börnin halda áfram að vera óþekk sem gerir foreldrana örþreytta og (2) foreldrarnir gefa óskýr skilaboð og það gerir börnin óörugg.

Hins vegar getur agi þjálfað huga barnsins og mótað siðferðiskennd þess ef hann er veittur af yfirvegun og kærleika. Hann gerir börnin líka að öruggum og ábyrgum einstaklingum þegar þau vaxa úr grasi. En hvar er hægt að finna trausta leiðsögn um barnauppeldi?

Meginreglur Biblíunnar koma að gagni

Vottar Jehóva, útgefendur þessa tímarits, trúa því að Biblían fari með rétt mál þegar hún segist vera „nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti“. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Biblían er miklu meira en handbók í barnauppeldi en meginreglur hennar gefa fjölskyldum gagnlegar leiðbeiningar. Tökum nokkur dæmi.

BIBLÍAN SEGIR: „Setjist heimskan að í hjarta sveinsins ...“ – Orðskviðirnir 22:15.

Þó að börn geti verið yndislega hugulsöm og góðhjörtuð hafa þau líka tilhneigingu til að gera ýmislegt heimskulegt. Þess vegna þurfa börn aga. (Orðskviðirnir 13:24) Ef þú viðurkennir þá staðreynd áttu auðveldara með að sinna skyldum þínum sem foreldri.

BIBLÍAN SEGIR: „Sparaðu ekki aga við hinn unga.“ – Orðskviðirnir 23:13.

Þú þarft ekki að óttast að hæfilegur agi skaði barnið eða fylli það gremju gagnvart þér síðar á ævinni. Þegar aginn er veittur af kærleika lærir barnið að taka auðmjúkt við leiðréttingu. Það er eiginleiki sem barnið þarf á að halda allt lífið. – Hebreabréfið 12:11.

BIBLÍAN SEGIR: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ – Galatabréfið 6:7.

Foreldrum er eðlislægt að vilja vernda börnin sín og þau eiga líka að gera það. En þeir þurfa að gæta jafnvægis. Þú gerir börnum þínum ekki gagn með því að „bjarga“ þeim frá afleiðingum gerða sinna eða verja þau þegar kennari eða einhver annar bendir þér á slæma hegðun þeirra. Líttu heldur á þá sem bandamenn. Þannig kennirðu barninu að virða yfirvald – þar á meðal þitt yfirvald. – Kólossubréfið 3:20.

BIBLÍAN SEGIR: „Agalaus sveinn gerir móður sinni skömm.“ – Orðskviðirnir 29:15.

Sýndu væntumþykju, festu og sanngirni.

Foreldrar ættu aldrei að misbeita valdi sínu. En þeir mega ekki heldur fara út í hinar öfgarnar og verða of eftirlátir. „Börn, sem eiga eftirláta foreldra, gera sér litla grein fyrir því að fullorðna fólkið á heimilinu fari með yfirráðin,“ segir í bókinni The Price of Privilege. Ef þú axlar ekki ábyrgð þína getur barnið haldið að það sé við stjórnvölinn. Óhjákvæmilega tæki barnið óviturlegar ákvarðanir sem kæmi illa niður á því sjálfu – og þér. – Orðskviðirnir 17:25; 29:21.

BIBLÍAN SEGIR: „Fyrir því skal maður ... búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður.“ – Matteus 19:5.

Samkvæmt Biblíunni eiga maður og kona að vera gift áður en þau eignast börn og þau eiga að halda áfram að vera saman þegar börnin eru flogin úr hreiðrinu. (Matteus 19:5, 6) Það má því segja að þú sért fyrst og fremst maki, síðan foreldri. Ef forgangsröðinni er snúið við getur farið svo að barnið ,hugsi hærra um sjálft sig en hugsa ber‘. (Rómverjabréfið 12:3) Fjölskyldulíf, sem snýst bara um börnin, veikir hjónabandið.

Góð ráð handa foreldrum

Til að vera farsælt foreldri ætti aginn, sem þú veitir börnunum, að byggjast á eftirfarandi meginreglum.

Sýndu væntumþykju. „Verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ – Kólossubréfið 3:21.

Sýndu festu. „Þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei.“ – Matteus 5:37.

Sýndu sanngirni. „Ég mun refsa þér við hæfi.“ – Jeremía 30:11. *

^ gr. 21 Farðu inn á jw.org/is til að fá nánari upplýsingar. Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > HJÓN OG FORELDRAR. Þar má finna greinar eins og „Uppeldi og ögun barnanna“, „Að bregðast rétt við frekjuköstum“, „Hjálpaðu börnum þínum að tileinka sér góð siðferðisgildi“ og „Að kenna unglingnum að virða heimilisreglurnar“.