Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er ég með fullkomnunaráráttu?

Er ég með fullkomnunaráráttu?

 Ef þú

  •   sættir þig ekki við minna en A+ á öllum prófum

  •   forðast nýjar áskoranir af ótta við að mistakast

  •   lítur á alla gagnrýni sem árás á þig sem persónu

 ... gæti svarið við spurningunni hér að ofan verið . En skiptir það máli?

 Er eitthvað að því að vera með fullkomnunaráráttu?

 Það er ekkert að því að reyna að gera sitt besta. En það er „stór munur á því að sækjast á heilbrigðan hátt eftir góðum árangri og því að sækjast á óheilbrigðan hátt eftir ómögulegri fullkomnun,“ segir í bókinni Perfectionism – What‘s Bad About Being Too Good? Í henni segir einnig: „Fullkomnunarárátta getur verið mönnum þungur baggi að bera vegna þess að enginn er fullkominn.“

 Í Biblíunni er komist að sömu niðurstöðu. Þar segir: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Þar sem þú ert ófullkominn verður frammistaða þín stundum minna en stórkostleg.

 Finnst þér erfitt að sætta þig við það? Ef svo er skaltu velta því fyrir þér á hvaða fjóra vegu fullkomnunarárátta hefur áhrif á þig – og ekki til hins betra.

  1.   Hvernig þú lítur á sjálfan þig. Þeir sem eru með fullkomnunaráráttu setja sér óhóflega há viðmið – sem eru ávísun á vonbrigði. „Það gefur auga leið að við getum ekki verið góð í öllu. Ef við drögum okkur sífellt niður fyrir að vera ekki fullkomin missum við á endanum allt sjálfstraust. Þá getum við orðið niðurdregin.“ – Alicia.

  2.   Hvernig þú lítur á gagnleg ráð. Þeir sem eru með fullkomnunaráráttu hafa tilhneigingu til að líta á gagnrýni sem mannorðsmorð. „Þegar einhver leiðréttir mig líður mér hræðilega,“ segir ungur maður sem heitir Jeremy. Hann bætir við: „Að vera með fullkomnunaráráttu kemur í veg fyrir að maður viðurkenni takmörk sín og þiggi nauðsynlega aðstoð.“

  3.   Hvernig þú lítur á aðra. Þeir sem eru með fullkomnunaráráttu eru gjarnan gagnrýnir á aðra eins og gefur að skilja. „Þegar þú væntir fullkomnunar af sjálfum þér gerirðu sömu kröfu til annarra,“ segir Anna, 18 ára. „Þegar fólk stenst ekki væntingar þínar, veldur það þér stöðugt vonbrigðum.“

  4.   Hvernig aðrir líta á þig. Ef þú hefur óhóflegar væntingar til annarra skaltu ekki vera hissa þótt fólk fari að forðast þig. „Maður verður úrvinda ef maður reynir að standast óhóflegar væntingar þess sem er með fullkomnunaráráttu,“ segir ung kona sem heitir Beth. „Það vill enginn vera með slíku fólki.“

 Hvað er til ráða?

 Í Biblíunni segir: „Minn þau á að ... vera sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd.“ (Títusarbréfið 3:1, 2) Sanngjarnt fólk gætir jafnvægis og gerir sanngjarnar kröfur til sín og annarra.

 „Við erum þegar undir nægu utanaðkomandi álagi. Af hverju ættum við að auka álagið með fullkomnunaráráttu? Það er allt of mikið að glíma við. – Nyla.

 Í Biblíunni er okkur sagt að ,ganga fram í lítillæti fyrir Guði‘. (Míka 6:8) Lítillátt fólk þekkir takmörk sín. Það tekur ekki meira að sér en það getur gert og eyðir ekki meiri tíma í verkefni heldur en það getur leyft sér.

 „Ef ég vil geta sinnt ábyrgð minni vel, get ég aðeins tekið að mér hæfilega mikið. Ég hef mín takmörk.“ – Hailey.

 Í Biblíunni segir: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það.“ (Prédikarinn 9:10) Þannig að ráðið við fullkomnunaráráttu er ekki leti, heldur dugnaður ásamt áðurnefndum eiginleikum – sanngirni og lítillæti.

 „Ég reyni að vinna vinnuna mína eins vel og ég get og gef mig alla í hana. Ég geri mér grein fyrir því að ég verð aldrei fullkominn en ég er ánægður að vita að ég geri mitt besta.“ – Joshua.