Hoppa beint í efnið

Hvað er Biblían?

Hvað er Biblían?

Svar Biblíunnar

 Staðreyndir um Biblíuna

  •   Hverjir skrifuðu Biblíuna? Guð er höfundur Biblíunnar en hann valdi um 40 menn til að skrifa hana. Það voru til dæmis Móse, Davíð konungur, Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. a Guð lét ritarana skrá boðskap sinn og hugsanir. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

     Tökum dæmi: Kaupsýslumaður les ritara bréf til að skrifa í sínu nafni en er samt höfundur bréfsins, jafnvel þótt hann nefni bara aðalatriðin. Á líkan hátt er Guð höfundur Biblíunnar þótt hann hafi notað menn til að skrifa hana.

  •   Hvað merkir orðið „biblía“? Orðið „biblía“ er dregið af gríska orðinu biblia sem merkir „litlar bækur“. Með tímanum festist orðið við heildarsafn bókanna sem saman mynda Biblíuna.

  •   Hvenær var Biblían skrifuð? Byrjað var að skrifa Biblíuna árið 1513 f.Kr. og því var lokið rúmlega 1600 árum síðar, um árið 98.

  •   Hvar eru frumhandrit Biblíunnar? Ekki er vitað til þess að nein frumhandrit af Biblíunni hafi varðveist. Það er vegna þess að biblíuritararnir skrifuðu á forgengilegt efni sem var í boði á þeim tíma eins og papýrus og skinn. Atvinnuskrifarar afrituðu biblíuhandritin af ítrustu nákvæmni um aldir og þannig varðveittist innihald þeirra fyrir lesendur síðar meir.

  •   Hvað er „Gamla testamentið“ og hvað er „Nýja testamentið“? Það sem er almennt kallað Gamla testamentið er sá hluti Biblíunnar sem var aðallega skrifaður á hebresku, b einnig kallað Hebresku ritningarnar. Það sem er kallað Nýja testamentið á við um þann hluta sem var skrifaður á grísku, einnig kallað kristnu Grísku ritningarnar. Þessir tveir hlutar mynda eina bók, einnig nefnd Heilög ritning. c

  •   Hvað inniheldur Biblían? Í Biblíunni er að finna mannkynssögu, lög, spádóma, ljóð, orðskviði, söngva og bréf. – Sjá „ Listi yfir bækur Biblíunnar“.

 Um hvað fjallar Biblían?

 Biblían hefst með stuttu ágripi um það hvernig almáttugur Guð skapaði himin og jörð. Hann kynnir sig í Biblíunni fyrir mannkyninu með nafninu Jehóva. – Sálmur 83:18.

 Biblían útskýrir að dregin hafi verið upp röng mynd af Guði og bendir á hvernig hann muni hreinsa nafn sitt.

 Biblían opinberar fyrirætlun Guðs með mannkynið og jörðina. Hún skýrir hvernig hann mun útrýma öllu sem veldur þjáningum manna.

 Biblían býður okkur gagnleg ráð fyrir daglegt líf. Dæmi um það:

  •   Að eiga góð samskipti við aðra. „Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“ – Matteus 7:12.

     Hvað merkir það? Við ættum að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur.

  •   Að takast á við streitu. „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur.“ – Matteus 6:34.

     Hvað merkir það? Það er betra að taka einn dag í einu í staðinn fyrir að hafa of miklar áhyggjur af því sem gæti hent í framtíðinni.

  •   Að vera hamingjusamur í hjónabandinu. ‚Hver og einn á að elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.‘ – Efesusbréfið 5:33.

     Hvað merkir það? Það skiptir miklu máli í hjónabandinu að sýna ást og virðingu.

 Hefur Biblíunni verið breytt?

 Nei. Fræðimenn hafa vandlega borið saman forn biblíuhandrit og Biblíuna eins og hún er nú. Þeir hafa komist að því að upprunalegur boðskapur hennar hefur ekki breyst. Það er líka rökrétt að Guð tryggi að boðskapur sinn breytist ekki svo fólk geti lesið hann og skilið. dJesaja 40:8.

 Hvers vegna eru svona margar biblíuþýðingar?

 Fæstir nútímamenn skilja þau fornu tungumál sem Biblían var skrifuð á. Í henni er samt að finna „fagnaðarboðskap“ til að boða fólki af ‚hverri þjóð, ættflokki og tungumáli‘. (Opinberunarbókin 14:6, neðanmáls) Fólk þarf því biblíuþýðingu á því máli sem það skilur svo að það geti lesið og skilið boðskap Guðs.

 Til eru þrenns konar biblíuþýðingar.

  •   Orðrétt þýðing sem er eins bókstafleg og mögulegt er.

  •   Þýðing sem leggur áherslu á merkingu notar orð sem skila merkingu frummálstextans.

  •   Endursögn. Textinn er þýddur frjálslega og umorðaður eins og höfðar best til lesenda. Þess konar þýðingar verða stundum til þess að rétt merking brenglast.

 Í góðri biblíuþýðingu er gætt jafnvægis milli orðréttrar þýðingar og auðskilins nútímamáls til að koma boðskap Guðs nákvæmlega til skila. e

 Hver ákvað hvað ætti að vera í Biblíunni?

 Sem höfundur Biblíunnar ákvað Guð hvað ætti að standa í henni. Ísraelsþjóðinni til forna var „trúað fyrir heilögum boðskap Guðs“ til að standa vörð um Hebresku ritningarnar. – Rómverjabréfið 3:2.

 Hafa einhverjar biblíubækur glatast?

 Nei. Biblían er heil og alger, það eru engar „týndar“ bækur. Sumir kunna að halda því fram að ákveðnar fornar bækur sem hefur lengi verið haldið leyndum séu hluti af Biblíunni. f Í Biblíunni sjálfri er að finna aðferð til að ganga úr skugga um þetta. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Biblíubækur sem eru innblásnar af Guði eru í algeru samræmi hver við aðra. Það er ekki hægt að segja það sama um öll þau fornrit sem sumir segja að séu hluti af Biblíunni. g

 Að finna biblíuvers

  Listi yfir bækur Biblíunnar

a Sjá „Yfirlit yfir bækur Biblíunnar“ til að sjá lista yfir allar bækur Biblíunnar, hver skrifaði þær og hvenær þær voru skrifaðar.

b Lítill hluti Biblíunnar var skrifaður á arameísku, tungumáli sem er náskylt hebresku.

c Margir lesendur Biblíunnar kjósa frekar heitin „Hebresku ritningarnar“ og „kristnu Grísku ritningarnar“. Þau ýta ekki undir þá hugmynd að „Gamla testamentið“ sé úrelt og að „Nýja testamentið“ hafi komið í staðinn fyrir það.

e Margir kjósa að lesa Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar vegna þess hve auðlesin og nákvæm hún er. Sjá greinina „Is the New World Translation Accurate?

f Þessi rit eru í heild kölluð apókrýfu ritin. Samkvæmt Encyclopædia Britannica ‚á þetta heiti í biblíulegum bókmenntum við rit utan þeirra rita sem eru áreiðanlegur hluti Biblíunnar‘.

g Til að fá frekari upplýsingar, sjá greinina „Apókrýf guðspjöll – opinbera þau áður óþekkt sannindi um Jesú?