Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um Daníel?

Hvað segir Biblían um Daníel?

Svar Biblíunnar

 Daníel var einstakur í röð spámanna Gyðinga. Hann lifði á sjöundu og sjöttu öld f.Kr. Guð hjálpaði honum að ráða drauma, gaf honum vitarnir um atburði framtíðar og innblés honum að rita bókina sem ber nafn hans. – Daníel 1:17; 2:19.

Hver var Daníel?

 Daníel ólst upp í konungsríkinu Júda en þar var Jerúsalemborg og musteri Gyðinga. Árið 617 f.Kr. lagði Nebúkadnesar konungur Babýlonar Jerúsalem undir sig og flutti ‚merkustu menn landsins‘ í útlegð til Babýlonar. (2. Konungabók 24:15; Daníel 1:1) Daníel, sem hefur líklega verið á táningsaldri, var hernuminn með þeim.

 Daníel var fluttur til konungshallarinnar í Babýlon ásamt öðrum ungum mönnum, þar á meðal voru þeir Sadrak, Mesak og Abed Negó. Þar fengu þeir sérstaka þjálfun til að geta unnið í þjónustu ríkisins. Þrátt fyrir þrýsting til að gefa eftir og víkja frá trú sinni voru Daníel og vinir hans þrír trúir Jehóva Guði sínum. (Daníel 1:3–8) Eftir þriggja ára þjálfun hrósaði Nebúkadnesar konungur þeim fyrir visku og kunnáttu og mat þá ‚tíu sinnum betri en alla galdrapresta og særingamenn í öllu ríki hans.‘ Hann útnefndi Daníel og vini hans til að þjóna við hirð sína. – Daníel 1:18–20.

 Mörgum áratugum síðar, þegar Daníel var líklega á tíræðisaldri, var hann kallaður í höll konungs. Þá var maður að nafni Belsassar við völd í Babýlon. Hann bað Daníel að ráða skrift sem hafði birst með undraverðum hætti á veggnum. Daníel naut leiðsagnar Guðs og gat því sagt fyrir um fall Babýlonar í hendur Meda og Persa. Borgin féll þessa sömu nótt. – Daníel 5:1, 13–31.

 Enn á ný var Daníel skipaður í háa stöðu, að þessu sinni undir stjórn Meda og Persa en Daríus konungur hafði hug á að veita honum enn hærri stöðu. (Daníel 6:1–3) Öfundsjúkir embættismenn voru með ráðabrugg um að drepa Daníel með því að láta kasta honum í ljónagryfju. En Jehóva kom honum til bjargar. (Daníel 6:4–23) Skömmu fyrir andlát sitt birtist honum engill Guðs í tvígang sem fullvissaði Daníel um að hann væri „mikils metinn“. – Daníel 10:11, 19.

 Sjáðu hvernig þessir atburðir lifna við í kvikmyndinni Daníel sýndi trú alla ævi sem er í tveim hlutum og byggist á frásögu Biblíunnar.