Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Hvernig má forðast afbrýðisemi í hjónabandi?

Hvernig má forðast afbrýðisemi í hjónabandi?

 Hjónaband getur ekki þrifist ef andrúmsloftið er þrungið grunsemdum og vantrausti. Hvernig geturðu forðast óviðeigandi afbrýðisemi?

Í þessari grein

 Hvað er afbrýðisemi?

 Afbrýðisemi getur haft á sér mismunandi blæ. Í þessari grein er átt við tilfinninguna sem við finnum ef við höldum að einhver sé að sýna maka okkar óviðeigandi áhuga eða að maki okkar sýni einhverjum slíkan áhuga. Okkur gæti fundist hjónabandi okkar ógnað. Ef sú er raunin þá er afbrýðisemi eðlileg og viðeigandi. Þegar allt kemur til alls er hjónaband nánasta samband tveggja einstaklinga og hjón ættu að gera allt sem þau geta til að vernda það.

 Meginregla Biblíunnar: „Þannig eru þau ekki lengur tvö heldur eitt. Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“ – Matteus 19:6.

 „Ef hjónabandinu er ógnað getur afbrýðisemi virkað eins og reykskynjari sem varar við hættunni og knýr þig til að bregðast við henni.“ – Benjamín.

 Óréttmæt afbrýðisemi er hins vegar knúin af tortryggni og ástæðulausum ótta. Sannur kærleikur verndar okkur gegn þess konar afbrýðisemi. (1. Korintubréf 13:4, 7) Dr. Robert L. Leahy segir að óréttmæt afbrýðisemi leiði til „breytni sem geti ógnað sambandinu sem þú ert að reyna að vernda.“ a

 Hvað veldur óréttmætri afbrýðisemi?

 Þér er hættara við afbrýðisemi ef fyrri maki þinn sveik þig eða ef hjónaband foreldra þinna fór út um þúfur vegna framhjáhalds. Þú óttast þá kannski að það fari eins fyrir þínu.

 „Pabbi hélt fram hjá mömmu þegar ég var lítil og þess vegna hefur tortryggnin alltaf fylgt mér. Hún er tilfinningalegt ör sem stundum gerir óþægilega vart við sig í hjónabandi mínu.“ – Melissa.

 Önnur ástæða gæti verið sú að þú sért óöruggur með þig og þér hættir því til að líta á aðra sem ógn við hjónaband þitt. Þú gætir jafnvel talið þér trú um að maki þinn myndi stinga af með öðrum ef hann fengi tækifæri til.

 „Maðurinn minn var beðinn að gegna sérstöku hlutverki í brúðkaupi vinar okkar. Það fól meðal annars í sér að við viss tækifæri myndi hann vera dansherra ákveðinnar brúðarmeyjar. Ég var alls ekki sátt við það. Ég krafðist þess að hann segði nei.“ – Naomi.

 Brúðkaupsvenjur eru margbreytilegar en þeir sem vilja þóknast Guði láta meginreglur Biblíunnar leiðbeina sér. Var Naomi sanngjörn í þessu tilfelli? Hún viðurkennir að þegar hún líti til baka hafi afbrýðisemi hennar verið ástæðulaus. „Mig skorti sjálfstraust á þessum tíma,“ segir hún „og ég hélt að maðurinn minn myndi bera mig saman við aðrar konur, en þetta var bara í höfðinu á mér.“

 Hver sem orsökin er getur óviðeigandi afbrýðisemi komið þér til að gruna maka þinn og jafnvel ásaka hann ranglega um ótrygglyndi. Slíkt leiðir til andrúmslofts þar sem ríkir vantraust en það er skaðlegt fyrir hjónaband þitt og líka heilsuna.

 Meginregla Biblíunnar: „Afbrýðisemi er eins og krabbamein.“ – Orðskviðirnir 14:30, Easy-to-Read Version.

 Hvernig geturðu haft hemil á afbrýðiseminni?

 Byggðu upp traust. Í stað þess að leita að vísbendingum um ótrygglyndi skaltu hugleiða hvernig maki þinn hefur áunnið sér traust þitt.

 „Ég hugsa um góðu eiginleikana í fari mannsins míns. Ef hann veitir einhverjum athygli er það vegna þess að hann lætur sér annt um aðra en ekki vegna þess að hann hefur rangar hvatir. Ég þarf að minna mig á að hjónaband mitt er ekki hjónaband foreldra minna.“ – Melissa

 Meginregla Biblíunnar: „Kærleikurinn … trúir öllu.“ – 1. Korintubréf 13:4, 7.

 Skoraðu á tortryggni þína. Dr. Leahy sem var vitnað í hér að ofan segir: „Við meðhöndlum oft hugsanir okkar eins og um sannleika sé að ræða. Sannfæring okkar um að við höfum á réttu að standa verður að sönnunargagni. Hlutirnir verða ekki sannir við það að trúa því að svo sé og sannfæringin ein er ekki sönnun.“ b

 „Ef við förum að lesa einhverja merkingu inn í aðstæður og draga ályktanir getum við búið til vandamál sem var aldrei til staðar.“ – Nadine.

 Meginregla Biblíunnar: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ – Filippíbréfið 4:5.

 Ræðið um áhyggjuefni ykkar. Án tillits til þess hver er orsök afbrýðiseminnar skaltu ræða við maka þinn um áhyggjur þínar svo að þið getið komið ykkur saman um skynsamleg mörk í samskiptum við hitt kynið.

 „Nálgastu svona samtal út frá því sjónarmiði að maki þinn vilji ekki særa þig og að hann eða hún sé líka að velta þessum spurningum fyrir sér. Látið hvert annað njóta vafans. Gæti viðkvæmni eða of háar væntingar verið vandamálið? Eða gerir maki þinn sér kannski ekki grein fyrir því að hann eða hún er ekki að veita þér þá athygli sem þú þarfnast?“ – Ciara.

 Meginregla Biblíunnar: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.

a b Tilvitnun í bókina The Jealousy Cure.