Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Hverjir eru Vottar Jehóva?

Hverjir eru Vottar Jehóva?

„Ég hafði þekkt Mike í mörg ár. Hann er vottur Jehóva en trú hans var mér alltaf hulin ráðgáta. Hver er Jehóva eiginlega? Hvers vegna halda vottarnir ekki hátíðir? Var Mike kannski flæktur í einhvern skrítinn sértrúarsöfnuð?“ – Becky frá Kaliforníu í Bandaríkjunum.

„Þegar nágrannar mínir fóru að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva hugsaði ég: ,Hvað þýðir nafnið Vottar Jehóva? Þetta er undarlegt nafn á trúflokki.‘“ – Zenon frá Ontario í Kanada.

„Við hjónin héldum að vottar Jehóva bönkuðu upp á til að spila á sektarkennd okkar fyrir að sækja ekki kirkju. Við hugsuðum að ef stóru kirkjudeildirnar hefðu ekki það sem við sóttumst eftir hefði furðulegur sértrúarsöfnuður eins og Vottar Jehóva það ekki heldur.“ – Kent frá Washington í Bandaríkjunum.

„Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um hverjir þeir væru eða hverju þeir tryðu.“ – Cecilie frá Esbjerg í Danmörku.

Þú hefur örugglega séð þá boða trúna hús úr húsi eða á almannafæri, dreifa biblíutengdum ritum og bjóða fólki ókeypis biblíunámskeið. Sennilega fékkstu þetta blað hjá einum þeirra. En kannski veltirðu samt fyrir þér hverjir Vottar Jehóva eru. Kannski hugsarðu svipað og fólkið sem vitnað er í hér að ofan.

Hvar geturðu fengið áreiðanleg svör ef slíkar spurningar brenna á þér? Hvernig geturðu komist að því hverju vottar Jehóva trúa, hvernig þeir fjármagna boðunarstarf sitt og tilbeiðslustaði eða hvers vegna þeir banka upp á hjá fólki og tala við það á almannafæri um trúna?

„Ég las heilmikið um Votta Jehóva á Netinu,“ segir Cecilie, sem vitnað var í áður. „Ég hlustaði líka á kjaftasögur og fordómafullar umræður um þá. Þar af leiðandi myndaði ég mér mjög neikvæða skoðun á vottum Jehóva.“ Seinna talaði hún hins vegar sjálf við vottana og fékk fullnægjandi svör við spurningum sínum.

Vilt þú fá fullnægjandi svör við spurningum þínum um Votta Jehóva? Við hvetjum þig til að leita þangað sem þú getur fengið áreiðanlegustu svörin – til Votta Jehóva sjálfra sem gefa út þetta tímarit. (Orðskviðirnir 14:15) Við vonum að næstu greinar varpi ljósi á hver við erum, hverju við trúum og af hverju við boðum trúna.