Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ER SATAN TIL?

Er Satan bara táknmynd hins illa?

Er Satan bara táknmynd hins illa?

Það er tiltölulega auðvelt að álykta að Satan, sem nefndur er í Biblíunni, sé aðeins táknmynd hins illa. En er það í raun og veru það sem Biblían kennir? Ef svo er hvers vegna stendur þá í Biblíunni að Satan hafi átt orðaskipti við Jesú Krist og við alvaldan Guð? Lítum á tvö atvik þar sem slíkar samræður áttu sér stað.

ÞEGAR SATAN TALAÐI VIÐ JESÚ

Þegar Jesús hóf þjónustu sína á jörð reyndi djöfullinn að leiða hann afvega með því að freista hans á þrjá vegu. Fyrst reyndi Satan að fá Jesú til að vera eigingjarn og seðja hungur sitt með því að misnota kraftinn sem hann fékk frá Guði. Síðan manaði hann Jesú til að stofna lífi sínu í hættu að óþörfu og vekja þannig athygli á sjálfum sér. Að síðustu sagði Satan að hann myndi fela Jesú völdin yfir öllum ríkjum veraldar ef Jesús félli fram fyrir hann og tilbæði hann einu sinni. Jesús varðist öllum þessum lævísu árásum með því að vitna í ritningarnar. – Matteus 4:1-11; Lúkas 4:1-13.

Við hvern var Jesús að tala? Var hann að tala við hið illa innra með sér? Biblían segir að Jesú hafi verið „freistað ... á allan hátt eins og okkar en án syndar“. (Hebreabréfið 4:15) Hún segir einnig: „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ (1. Pétursbréf 2:22) Jesús varðveitti fullkomleika sinn og var alltaf ráðvandur. Hann lét aldrei neina illsku þróast innra með sér. Það er því ljóst að Jesús var ekki að tala við eitthvað illt innra með sér heldur var hann að tala við raunverulega persónu.

Þessar samræður leiða líka ýmislegt fleira í ljós sem sannar að Satan er raunveruleg persóna.

  • Mundu að djöfullinn sagði að hann myndi fela Jesú völdin yfir öllum ríkjum veraldar ef Jesús félli fram fyrir hann og tilbæði hann einu sinni. (Matteus 4:8, 9) Ef Satan væri ekki til hefði þetta verið marklaust tilboð. Þar að auki dró Jesús ekki í efa að Satan væri jafn valdamikill og hann gaf sjálfur í skyn.

  • Þegar Jesús hafði hafnað þessum freistingum „vék [djöfullinn] frá honum að sinni“. (Lúkas 4:13) Hljómar þetta eins og Satan sé aðeins táknmynd hins illa eða frekar eins og hann sé vægðarlaus og einbeittur andstæðingur?

  • Taktu eftir að í frásögunni segir að „englar komu og þjónuðu“ Jesú. (Matteus 4:11) Voru þessir englar, sem veittu Jesú hvatningu og aðstoð, raunverulegar andaverur? Já, það er nokkur ljóst. Af hverju ættum við þá að halda að Satan hafi verið eitthvað annað en raunveruleg andavera?

ÞEGAR SATAN TALAÐI VIÐ GUÐ

Hitt dæmið er að finna í frásögu um guðhræddan mann sem hét Job. Þar segir frá tveim samtölum milli Satans og Guðs. Í báðum tilfellum hrósaði Guð Job fyrir ráðvendni hans. Satan fullyrti hins vegar að Job þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum og gaf í skyn að Guð keypti sér hollustu Jobs. Djöfullinn fullyrti í rauninni að hann þekkti Job betur en Guð gerði. Jehóva leyfði Satan að ræna Job eigum hans, börnum og jafnvel heilsunni. * Þegar fram liðu stundir varð deginum ljósara að Jehóva hafði á réttu að standa um Job og að Satan var lygari. Guð blessaði Job fyrir ráðvendni hans. – Jobsbók 1:6-12; 2:1-7.

Sýna þessi samtöl fram á að Jehóva var að tala við eitthvað illt innra með sér? Biblían segir: „Vegur Guðs er lýtalaus.“ (2. Samúelsbók 22:31) Orð Guðs segir einnig: „Heilagur, heilagur, heilagur, [er] Drottinn Guð, hinn alvaldi.“ (Opinberunarbókin 4:8) Að vera heilagur merkir að vera hreinn, helgur og syndlaus. Jehóva er fullkominn og lýtalaus. Það getur því engin illska búið innra með honum.

Samtal Satans við Guð hafði í för með sér raunverulegar afleiðingar fyrir Job.

Sumir fullyrða kannski að Job hafi ekki einu sinni verið til og því sé samtal Guðs og Satans ekki annað en líkingasaga. En á það við rök að styðjast? Önnur biblíuvers gefa til kynna að Job hafi verið raunveruleg persóna. Lítum á dæmi. Í Jakobsbréfinu 5:7-11 er minnst á fordæmi Jobs í þeim tilgangi að hvetja kristna menn til að halda út í raunum og minna þá á að Jehóva umbunar þeim sem eru þolgóðir. Væri þessi hvatning ekki marklaus ef Job hefði aldrei verið til og árásir Satans aðeins skáldskapur? Lítum á annað dæmi. Í Esekíel 14:14, 20 er minnst á þrjá réttláta menn, þá Nóa, Daníel og Job. Rétt eins og þeir Nói og Daníel var Job raunveruleg persóna og mikill trúmaður. Fyrst Job var til, hlýtur þá ekki sá sem ofsótti hann einnig að hafa verið til?

Það er augljóst að Biblían lýsir Satan sem raunverulegri andaveru. En þér er kannski spurn: Stafar mér og fjölskyldu minni einhver hætta af Satan nú á dögum?

HVAÐ UM NÚTÍMANN?

Ímyndaðu þér að hópur harðsvíraðra glæpamanna kæmi sér fyrir á svæðinu þar sem þú býrð. Það gefur augaleið að íbúarnir myndu hafa áhyggjur af öryggi sínu og að siðferði myndi almennt hraka. Ímyndaðu þér nú að yfirráðasvæði Satans – og illu andanna, en þeir eru raunverulegar andaverur sem gerðu uppreisn gegn Guði líkt og Satan – sé nú takmarkað við jörðina. Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér? Hvað finnst þér vera áberandi bæði í innlendum og erlendum fréttum?

  • Finnst þér að glórulausum ofbeldisverkum fjölgi þrátt fyrir tilraunir alþjóðasamfélagsins til að sporna gegn þeim?

  • Finnst þér vera meira um skemmtiefni með dulrænu ívafi þrátt fyrir að margir foreldrar telji það skaðlegt fyrir börnin?

  • Finnst þér að unnin séu gengdarlaus umhverfisspjöll þrátt fyrir viðleitni margra til að vernda náttúruna?

  • Finnst þér vera eitthvað verulega bogið við mannlegt samfélag – rétt eins og eitthvert afl sé að reka mannkynið fram á ystu nöf?

Taktu eftir hvað Biblían segir um það hver standi á bak við þessa erfiðleika: „Drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum ... Vei sé jörðunni og hafinu því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:9, 12) Eftir að hafa kynnt sér málið hafa margir komist að þeirri niðurstöðu að Satan sé hættuleg andavera sem hafi gríðarleg áhrif á allan heiminn.

Þér er ef til vill spurn hvað þú getur gert til að vernda þig. Það er full ástæða til að velta því fyrir sér. Í næstu grein er bent á hvernig hægt sé að verja sig.

^ gr. 12 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.