Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Siðferði – er trúarbrögðunum treystandi?

Siðferði – er trúarbrögðunum treystandi?

„Margir sem voru með mér í menntaskóla sögðust vera trúaðir,“ segir Sylvía sem er hjúkrunarkona. „Þeir svindluðu samt á prófum og neyttu fíkniefna. Trúin hafði engin áhrif á líf þeirra.“

Maður sem heitir Lionel segir: „Vinnufélagar mínir hringja í vinnuna og ljúga því að þeir séu veikir þegar þeir eru það ekki. Þeir telja sig trúaða en iðka aldrei trú sína, hún er eins og húsgagn sem er bara til sýnis.“

Nú á tímum hefur trú flestra ekki mikil áhrif á siðferði þeirra. Margir „hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar“. (2. Tímóteusarbréf 3:5) Trúarleiðtogar þeirra hafa ekki gengið á undan með góðu fordæmi. Prestastéttin hefur heldur ekki gefið sóknarbörnum sínum þá biblíulegu leiðsögn sem þau þurfa til að varðveita gott siðferði. Það er engin furða að margir trúi því að Guð hafi engan áhuga á hvernig þeir lifi lífi sínu.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni kemur fram að Guð hafi tilfinningar og að það skipti hann miklu máli hvernig við hegðum okkur. Þegar Ísraelsmenn til forna gerðu uppreisn gegn Guði „hryggðu [þeir] hann“. (Sálmur 78:40, Biblían 1981) Hins vegar verður mikill „fögnuður á himni“ þegar einhver iðrast synda sinna í einlægni og snýr baki við rangri breytni. (Lúkas 15:7) Þegar einstaklingur lærir að þekkja þá fallegu eiginleika sem Guð býr yfir, dýpkar kærleikur hans til Guðs. Það knýr hann til að elska það sem Guð elskar og hata það sem Guð hatar. – Amos 5:15.

HVAÐ UM VOTTA JEHÓVA?

Vottar Jehóva „stuðla að samheldni fjölskyldna og hvetja borgara til að vera vinnusama og heiðarlega”, segir í dagblaðinu Deseret News sem gefið er út í Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum. Þar segir enn fremur: „Vottarnir aðhyllast strangt siðgæði. Þeir líta svo á að reykingar, ofdrykkja, fíkniefnaneysla, fjárhættuspil, lauslæti og samkynhneigð spilli sambandi þeirra við Guð.“

Hafa trúarleiðtogar hjálpað sóknarbörnum sínum að fylgja lögum Guðs í siðferðismálum?

Hvernig er það vottunum til góðs að kynnast persónuleika Guðs? „Það er mikið um að fólk sé óheiðarlegt innan heilbrigðisgeirans,“ segir Sylvía sem minnst var á í byrjun greinarinnar. „Það væri auðvelt að fylgja bara straumnum. En þar sem ég veit hvað Jehóva * finnst um það á ég auðveldara með að gera það sem er rétt. Ég er glöð og hef innri frið.“ Sylvía lifir í samræmi við trúarsannfæringu sína og er fullviss um að það hafi bætt líf hennar til muna.

^ gr. 9 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.