Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram í Ekvador

Þau buðu sig fúslega fram í Ekvador

Þau buðu sig fúslega fram í Ekvador

UNGUR bróðir á Ítalíu þurfti að taka alvarlega ákvörðun þegar hann lauk námi í framhaldsskóla. Hann var með hæstu einkunn í bekknum og nú hvöttu ættingjar og kennarar hann til að fara í háskóla. Þessi ungi maður, sem heitir Bruno, hafði vígt sig Jehóva nokkrum árum áður og lofað honum að láta vilja hans hafa forgang í lífi sínu. Hvaða ákvörðun tók hann? Hann segir: „Ég sagði Jehóva í bæn að ég ætlaði að standa við vígsluheitið og láta vilja hans ganga fyrir. En satt að segja bætti ég við að mig langaði til þess að lífið yrði fjölbreytt í þjónustu hans en ekki tilbreytingarlaust.“

Nokkrum árum síðar var Bruno kominn til Ekvador í Suður-Ameríku. „Jehóva svaraði bænum mínum langt umfram væntingar mínar,“ segir hann. Þegar hann kom til Ekvador hitti hann sér til undrunar fjöldann allan af ungu fólki sem hafði flust þangað til að þjóna Jehóva í enn ríkari mæli en áður.

UNGT FÓLK SEM TREYSTIR JEHÓVA

Líkt og fjöldi ungmenna hvaðanæva úr heiminum þáði Bruno eftirfarandi boð Jehóva: „Reynið mig . . . og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.“ (Mal. 3:10) Þessi ungmenni elskuðu Guð og ákváðu að reyna hann með því að bjóða fúslega fram tíma sinn, krafta og fjármuni til að þjóna honum í landi þar sem vantaði fleiri boðbera fagnaðarerindisins.

Stuttu eftir að þessir fúsu verkamenn fara að starfa á nýju svæði sjá þeir með eigin augum að „uppskeran er mikil en verkamenn fáir“. (Matt. 9:37) Jaqueline, sem er frá Þýskalandi, skrifaði himinlifandi til deildarskrifstofunnar í Ekvador: „Ég hef aðeins starfað í Ekvador í rúmlega tvö ár og er þegar komin með 13 biblíunámskeið og 4 biblíunemendur koma reglulega á samkomur. Er það ekki stórkostlegt?“ Chantal frá Kanada segir: „Árið 2008 flutti ég á svæði á strönd Ekvadors en þar var aðeins einn söfnuður. Nú eru söfnuðirnir orðnir þrír og meira en 30 brautryðjendur starfa á svæðinu. Það er með ólíkindum að sjá svona marga nýja taka framförum.“ Hún bætir við: „Nýlega flutti ég til borgar sem er í 2.700 metra hæð uppi í Andesfjöllum. Þar búa rúmlega 75.000 manns en þar er aðeins einn söfnuður. Fólk er mjög móttækilegt fyrir boðskapnum. Ég nýt þess að vera í boðunarstarfinu.“

TÍMABUNDNIR ERFIÐLEIKAR

Það reynir auðvitað talsvert á að boða fagnaðarerindið erlendis. Og stundum er það reyndar þrautin þyngri að taka ákvörðun um að flytja til annars lands. Kayla frá Bandaríkjunum segir: „Neikvæð viðbrögð sumra heima voru letjandi, þó að þeir vildu vel. Þeir skildu ekki hvers vegna ég vildi fara til framandi lands til að starfa sem brautryðjandi. Stundum velti ég fyrir mér hvort ég væri að taka rétta ákvörðun.“ Þrátt fyrir það ákvað Kayla að fara og segir: „Endurteknar bænir til Jehóva og langar viðræður við þroskaða bræður og systur vöktu mig til vitundar um að Jehóva blessar þá sem vilja gera sitt besta í þjónustu hans.“

Margir eiga erfitt með að læra nýtt tungumál. Siobhan frá Írlandi rifjar upp eftirfarandi: „Það var erfitt fyrir mig að geta ekki tjáð mig. Ég varð að læra að vera þolinmóð, vera iðin við að tileinka mér tungumálið og hlæja að sjálfri mér þegar mér urðu á mistök.“ Anna frá Eistlandi bætir við: „Suðrænn hitinn, allt rykið og að geta ekki farið í heita sturtu var ekkert á við það að læra spænsku. Stundum var ég komin á fremsta hlunn með að gefast upp. Ég varð að læra að horfa á framfarirnar en ekki mistökin.“

Ekki má heldur líta fram hjá heimþránni. Jonathan frá Bandaríkjunum viðurkennir: „Stuttu eftir að ég kom til Ekvador var ég dapur yfir því að vera ekki lengur innan um vini og fjölskyldu. En ég komst yfir það með því að einbeita mér að sjálfsnámi og boðunarstarfi. Innan tíðar endurheimti ég gleðina vegna þess að það var svo spennandi að starfa úti á akrinum og vera með nýju vinunum sem ég eignaðist í söfnuðinum.“

Það kostar líka sitt að aðlagast nýjum lífsháttum. Líklega eru þeir ólíkir því sem við erum vön. Beau frá Kanada segir: „Heima er talið sjálfsagt að hafa rafmagn og rennandi vatn. En hér er ekki hægt að reiða sig á það.“ Fátækt, erfiðar samgöngur og ólæsi er algengt í mörgum þróunarlöndum. Ines frá Austurríki bregst við slíkum aðstæðum með því að hugsa um kosti fólksins á staðnum. Hún segir að fólkið sé einstaklega gestrisið, vingjarnlegt, hjálpsamt og hógvært. En mestu máli skipti að það hafi gríðarmikinn áhuga á að fræðast um Guð.

„ÓÞRJÓTANDI BLESSUN“

Allir þessir ungu boðberar, sem starfa í Ekvador, hafa fært fórnir. En þeim finnst Jehóva hafa veitt sér „langt fram yfir allt það“ sem væntingar þeirra stóðu til. (Ef. 3:20) Þeim finnst þeir hafa hlotið „óþrjótandi blessun“. (Mal. 3:10) Hér á eftir segja þeir frá reynslu sinni í boðunarstarfinu.

Bruno: „Ég hóf starf mitt hér í Ekvador við Amasonfljótið en það er mjög athyglisvert svæði. Síðar aðstoðaði ég við stækkun deildarskrifstofunnar í Ekvador. Nú starfa ég á Betel. Þegar ég var heima á Ítalíu ákvað ég að láta vilja Jehóva hafa forgang í lífi mínu og hann hefur svo sannarlega uppfyllt óskina um spennandi og fjölbreytt líf í þjónustu sinni.“

Beau: „Samband mitt við Jehóva er miklu nánara af því að í Ekvador get ég varið öllum tímanum í þjónustunni við hann. Á sama tíma nýt ég þeirrar blessunar að ferðast til heillandi staða en það hefur mig alltaf langað til.“

Anna: „Þar sem ég er einhleyp systir bjóst ég ekki við að geta lifað eins og trúboði. En nú veit ég að það er hægt. Svo er blessun Jehóva fyrir að þakka að ég fæ að kenna nýjum lærisveinum, aðstoða við byggingu ríkissala og eignast nýja vini.“

Elke: „Í heimalandi mínu, Austurríki, bað ég oft til Jehóva að ég fengi að stjórna aðeins einu biblíunámskeiði. Hérna er ég með 15! Það veitir mér mikla ánægju að sjá framsækna nemendur geislandi af gleði.“

Joel: „Það er mikil upplifun að koma á ókunnan stað til að þjóna Jehóva. Þar þarf maður miklu meira að setja traust sitt á hann og það er spennandi að sjá hvernig hann blessar það sem maður gerir. Fyrsta árið eftir að ég flutti frá Bandaríkjunum fjölgaði úr 6 boðberum upp í 21 í hópnum þar sem ég starfa. Það komu 110 manns á minningarhátíðina hjá okkur.“

HVAÐ UM ÞIG?

Hafið þið, ungu bræður og systur, tök á að starfa í landi þar sem er mikil þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins? Það er auðvitað stór ákvörðun og krefst vandlegrar skipulagningar. Umfram allt er nauðsynlegt að elska Jehóva og náungann innilega til að stíga slíkt skref. Ef þið gerið það og eruð hæf að öðru leyti skuluð þið biðja einlæglega til Jehóva um að fá að starfa erlendis. Talið svo nánar um löngun ykkar við foreldrana og öldunga safnaðarins. Þið komist ef til vill að þeirri niðurstöðu að þið getið líka átt þátt í þessari spennandi og ánægjulegu þjónustu.

[Innskot á bls. 3]

„Endurteknar bænir til Jehóva og langar viðræður við þroskaða bræður og systur vöktu mig til vitundar um að Jehóva blessar þá sem vilja gera sitt besta í þjónustu hans.“ – Kayla frá Bandaríkjunum

[Rammi/​Mynd á bls. 6]

Að búa sig undir að starfa erlendis

• Temdu þér reglubundið sjálfsnám.

• Skoðaðu vandlega bls. 4-6 í Ríkisþjónustu okkar í ágúst 2011.

• Talaðu við aðra sem hafa starfað erlendis.

• Kynntu þér menningu og sögu landsins.

• Farðu á byrjendanámskeið í tungumálinu.

[Rammi/​Mynd á bls. 6]

Sumir sem starfa erlendis sjá sér farborða með því að . . .

• vinna nokkra mánuði á ári í heimalandinu.

• leigja út húsið sitt, íbúðina eða fyrirtækið.

• nota Netið við fjarvinnu.

[Myndir á bls. 4, 5]

1 Jaqueline frá Þýskalandi

2 Bruno frá Ítalíu

3 Beau frá Kanada

4 Siobhan frá Írlandi

5 Joel frá Bandaríkjunum

6 Jonathan frá Bandaríkjunum

7 Anna frá Eistland

8 Elke frá Austurríki

9 Chantal frá Kanada

10 Ines frá Austurríki