Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna eldumst við og deyjum?

Hvers vegna eldumst við og deyjum?

GUÐ ætlaði manninum ekki að deyja. Adam og Eva, foreldrar mannkyns, voru sköpuð fullkomin á huga og líkama. Þau hefðu getað verið á lífi enn þann dag í dag. Það er ljóst af því sem Jehóva sagði við Adam um ákveðið tré í aldingarðinum Eden.

Jehóva Guð sagði við Adam: „Jafnskjótt og þú etur af [trénu] muntu deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Þetta bann hefði ekki haft neitt að segja ef Adam hefði hvort sem er átt að eldast og deyja. Adam vissi að hann myndi lifa að eilífu ef hann borðaði ekki af trénu.

GUÐ ÆTLAÐI MANNINUM EKKI AÐ DEYJA.

Það var ekki lífsnauðsynlegt fyrir Adam og Evu að borða af ávexti þessa trés –í garðinum voru mörg frjósöm tré. (1. Mósebók 2:9) Þau hefðu sýnt honum sem gaf þeim lífið hlýðni með því að borða ekki af trénu. Þannig hefðu þau einnig sýnt að þau viðurkenndu rétt Guðs til að segja þeim hvað þau mættu og hvað ekki.

HVERS VEGNA DÓU ADAM OG EVA?

Við þurfum að skoða samtal sem hefur haft áhrif á okkur öll til að skilja hvers vegna Adam og Eva dóu. Satan djöfullinn notaði höggorm til að koma á framfæri illgjarnri lygi. Í Biblíunni segir: „Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: ,Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?‘“ – 1. Mósebók 3:1.

Eva svaraði: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Þannig hélt Satan því fram að Jehóva væri lygari og að hann synjaði Adam og Evu um eitthvað gott. – 1. Mósebók 3:2–5.

Eva trúði því sem hún heyrði. Hún starði á tréð sem var svo fagurt og girnilegt. Hún teygði sig í ávöxt og borðaði af honum. Síðan segir Biblían: „Hún ... gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.“ – 1. Mósebók 3:6.

Guð sagði við Adam: „Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ – 1. MÓSEBÓK 2:17.

Það hlýtur að hafa sært Guð mikið að sjá elskuð börnin sín óhlýðnast af ásettu ráði. Hvað gerði hann? Jehóva Guð sagði við Adam: „Þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.“ (1. Mósebók 3:17–19) Og hvað gerðist? „Allir ævidagar Adams urðu níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann.“ (1. Mósebók 5:5) Adam fór ekki til himna eða hélt áfram að lifa á öðru tilverusviði. Hann var ekki til áður en Jehóva skapaði hann úr moldu jarðar. Þegar hann dó varð hann aftur að moldu. Hann hætti að vera til. Það voru dapurleg endalok.

HVERS VEGNA ERUM VIÐ ÓFULLKOMIN?

Adam og Eva misstu fullkomleikann og eilífa lífið vegna þess að þau óhlýðnuðust af ásettu ráði. Þau breyttust líkamlega – þau urðu ófullkomin og syndug. En synd þeirra kom niður á fleirum. Þau gáfu öllum afkomendum sínum syndina í arf. Í Rómverjabréfinu 5:12 segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“

Biblían lýsir synd og dauða sem ,fortjaldi, sem er hula öllum þjóðum og forhengi öllum lýðum‘. (Jesaja 25:7) Þetta fortjald hylur mannkynið eins og eitrað mistur sem ekki er hægt að flýja. Það er ljóst að „allir deyja vegna sambands síns við Adam“. (1. Korintubréf 15:22) Þá vaknar sama spurning og Páll postuli spurði: „Hver frelsar mig frá þessum dauðans líkama?“ Getur það einhver? – Rómverjabréfið 7:24.