Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ

Þegar börnin eru farin að heiman

Þegar börnin eru farin að heiman

VANDINN

Hjón standa oft frammi fyrir miklum vanda þegar börnin eru vaxin úr grasi og flogin úr hreiðrinu. Þau eru stundum eins og ókunnugar manneskjur þegar þau eru ein eftir í kotinu. „Ég veiti mörgu fólki ráðgjöf sem veit ekki hvernig það á að tengjast maka sínum á ný,“ segir M. Gary Neuman sem er fjölskylduráðgjafi. „Þegar börnin eru farin að heiman hafa [foreldrarnir] mjög fátt að tala um eða gera saman.“ *

Á þetta að einhverju leyti við um hjónaband þitt? Þið hjónin getið komist aftur á rétt spor þó að svo sé. En skoðum fyrst nokkur atriði sem geta átt sinn þátt í að þið hafið fjarlægst hvort annað.

ÁSTÆÐAN

Börnin höfðu forgang í mörg ár. Margir foreldrar vilja vel þegar þeir setja þarfir barna sinna ofar þörfum hjónabandsins. Hjónin verða svo vön því að vera í hlutverki pabba og mömmu að þau tapa sambandi sínu sem eiginmaður og eiginkona. Þegar börnin eru farin að heiman kemur það fljótt í ljós. „Við gerðum að minnsta kosti eitthvað saman á meðan börnin voru heima,“ segir eiginkona sem er 59 ára. En eftir að þau fóru að heiman „vorum við ekki á sama róli“, bætir hún við. Einhverju sinni sagði hún meira að segja við manninn sinn: „Við erum eiginlega fyrir hvort öðru.“

Sum hjón eru ekki búin undir þennan nýja kafla í lífinu. „Fyrir mörg hjón er það næstum eins og að vera komin í allt annað hjónaband,“ segir í bókinni Empty Nesting. Mörg hjón fara hvort um sig að sinna eigin málum þar sem þeim finnst þau eiga fátt sameiginlegt. Samband þeirra verður líkara sambandi samleigjenda en hjóna.

Það er gott til þess að vita að hjón geta varast gryfjurnar og notið kostanna í þessum nýja kafla í lífinu. Skoðum hvernig ráð Biblíunnar geta hjálpað.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Verið ákveðin í að sætta ykkur við breytingarnar. Í Biblíunni segir um uppkomin börn: „Maður [yfirgefur] föður sinn og móður sína.“ (1. Mósebók 2:24) Markmið ykkar foreldranna var að þjálfa börnin til að ná þessu marki og kenna þeim það sem þau þurfa til að geta séð um sig sem fullorðnir einstaklingar. Ef þið hafið þetta í huga getið þið verið stolt af því að börnin flytji að heiman. – Meginregla: Markús 10:7.

Þið verðið að sjálfsögðu alltaf foreldrar barnanna ykkar. En núna er hlutverk ykkar frekar að gefa þeim ráð en að hafa umsjón með þeim. Þessar breytingar gefa ykkur tækifæri til að halda nánu sambandi við börnin en jafnframt að láta samband ykkar hjónanna hafa forgang. * – Meginregla: Matteus 19:6.

Talið saman um hvernig ykkur líður. Talaðu við maka þinn um hvaða áhrif þessi breyting hefur á þig og vertu að sama skapi fús til að hlusta á hann. Sýndu maka þínum þolinmæði og skilning. Það getur tekið tíma að styrkja böndin ykkar á milli en það er fyrirhafnarinnar virði. – Meginregla: 1. Korintubréf 13:4.

Finnið ykkur sameiginleg áhugamál. Ræðið um hvaða markmið þið viljið setja ykkur í sameiningu eða áhugamál sem þið viljið sinna sem hjón. Þar sem þið hafið alið upp börn búið þið yfir hagnýtri reynslu. Hvernig væri að nota hana öðrum til góðs? – Meginregla: Jobsbók 12:12.

Verið staðráðin í að vera hvort öðru trú. Hugsið um að hverju þið löðuðust í fari hvort annars. Rifjið upp tímann sem þið hafið átt saman og það sem þið hafið gengið í gegnum í sameiningu. Þessi nýi kafli í lífi ykkar getur verið góður kafli. Með góðri samvinnu getið þið gert hjónabandið enn betra og glætt ástina sem dró ykkur hvort að öðru í upphafi.

^ gr. 4 Úr bókinni Emotional Infidelity.

^ gr. 12 Ef þú ert enn að ala upp börn, mundu þá að þið hjónin ættuð að vera sem „einn maður“. (Markús 10:8) Börn finna til öryggis þegar þau sjá að samband foreldranna er traust.