Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Stundvísi sautján ára tifunnar

Stundvísi sautján ára tifunnar

SÖNGTIFUR eru skordýr sem líkjast engisprettum. Þær finnast í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu. Sautján ára tifan, sem lifir í norðausturhluta Bandaríkjanna, hefur lengi heillað líffræðinga.

Hugleiddu þetta: Milljónir sautján ára tifa birtast skyndilega að vori og sjást aðeins í nokkrar vikur. Á þessum stutta tíma í sólskininu skilja þær við lirfuhaminn, syngja með ærandi hávaða, fljúga, fjölga sér og deyja síðan. Það furðulega er að næsta kynslóð birtist annaðhvort 13 eða 17 árum síðar, en það fer eftir tegund. Hvar eru þessi skordýr allan þennan tíma?

Til að geta svarað því þurfum við að skilja einstakan lífsferil sautján ára tifunnar. Um það bil einni viku eftir að skordýrin birtast para þau sig og kvendýrið verpir 400 til 600 eggjum í trjákvisti. Stuttu síðar deyja fullorðnu skordýrin. Innan nokkurra vikna klekjast eggin út og ungu lirfurnar falla til jarðar. Þær grafa sig ofan í jörðina og hefja líf neðanjarðar þar sem þær sjúga safa úr rótum trjáa eða runna næstu árin. Eftir 13 eða 17 ár kemur ný kynslóð upp á yfirborðið og hringrásin hefst á ný.

Samkvæmt grein í tímaritinu Nature hefur lífsferill þessarar söngtifu „valdið vísindamönnum heilabrotum í margar aldir ... Líffræðingar eru enn að reyna að komast til botns í því hvernig sérkennilegur lífsferill þessa skordýrs þróaðist.“ Þetta er einstök ráðgáta innan dýraríkisins.

Hvað heldur þú? Getur stundvísi söngtifunnar hafa komið til vegna þróunar? Eða býr hönnun að baki?