Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | YAN-DER HSUUW

Fósturfræðingur skýrir frá trú sinni

Fósturfræðingur skýrir frá trú sinni

PRÓFESSOR Yan-Der Hsuuw stjórnar rannsóknum á fósturvísum við Pingtung-háskóla í vísindum og tækni á Taívan. Hann trúði áður á þróun en það breyttist eftir að hann hóf vísindarannsóknir. Hann skýrði blaðinu Vaknið! frá hvers vegna það breyttist.

Segðu okkur aðeins af sjálfum þér.

Ég fæddist 1966 og ólst upp á Taívan. Trú foreldra minna var sambland af taóisma og búddatrú. Þó að við stunduðum forfeðradýrkun og bæðum bæna frammi fyrir líkneskjum hugsuðum við aldrei um að til væri Guð sem hefði skapað allt.

Hvers vegna fórstu í líffræðinám?

Þegar ég var barn hafði ég gaman af að sinna gæludýrum og mig langaði að læra hvernig ég gæti linað sársauka dýra og manna. Ég var í dýralæknisnámi um tíma og síðar fór ég í fósturfræði en ég vonaði að nám á því sviði gæti líka hjálpað mér að skilja upphaf lífsins.

Geturðu sagt okkur hvers vegna þú trúðir á þróun á þessum tíma?

Kennararnir mínir í háskólanum kenndu þróun og fullyrtu að sannanir lægju að baki þróunarkenningunni. Ég trúði þeim.

Hvers vegna fórstu að lesa Biblíuna?

Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi hugsaði ég að af öllum þeim guðum, sem eru tilbeðnir, hlyti einn að vera æðstur. En hver þeirra? Í öðru lagi vissi ég að Biblían er mjög virt bók. Þess vegna fór ég á námskeið til að kynna mér Biblíuna.

Þegar ég hóf nám við kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu árið 1992 fór ég í kaþólska kirkju og bað prestinn að hjálpa mér að skilja Biblíuna en hann vildi það ekki.

Hvar fékkstu svör við spurningum þínum?

Tveimur árum síðar, meðan ég var enn við vísindarannsóknir í Belgíu, hitti ég pólska konu að nafni Ruth sem var vottur Jehóva. Hún hafði lært kínversku til að geta aðstoðað háskólanema sem langaði að fræðast um Guð. Það hafði verið bænarefni mitt að fá slíka hjálp svo ég var himinlifandi að hitta hana.

Ruth sýndi mér fram á að Biblían samrýmist vísindum þó að hún sé ekki vísindarit. Til dæmis sagði biblíuritarinn Davíð í bæn til Guðs: „Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína áður en nokkur þeirra var til orðinn.“ (Sálmur 139:16) Davíð tjáði sig þarna á ljóðrænan hátt en í meginatriðum var þetta samt alveg rétt hjá honum. Áður en líkamshlutarnir byrja að taka á sig mynd eru allar upplýsingar til staðar um hvernig þeir eigi að þroskast. Nákvæmni Biblíunnar átti þátt í að sannfæra mig um að hún sé orð Guðs. Ég lærði líka að það er aðeins til einn sannur Guð, Jehóva. 1

Hvað sannfærði þig um að Guð skapaði lífið?

Vísindarannsóknir snúast um að komast að hinu sanna en ekki að styðja fyrir fram mótaðar hugmyndir. Rannsóknir mínar á fósturvísum fengu mig til að skipta um skoðun. Niðurstaða mín var að lífið væri skapað. Ég skal lýsa þessu með dæmi: Verkfræðingar hanna samsetningarlínur eða færibönd svo að hægt sé að setja hluti saman í réttri röð og á réttan hátt. Vöxtur og þroski fósturvísis er að einhverju leyti sambærilegur slíku ferli þó að hann sé auðvitað margfalt flóknari.

Byrjar ekki allt ferlið á einni frjóvgaðri frumu?

Jú. Síðan skiptir þessi örsmáa fruma sér og þar með er frumuskiptingaferlið hafið. Um tíma tvöfaldast frumufjöldinn á 12 til 24 stunda fresti. Snemma í ferlinu myndast frumur sem kallast stofnfrumur. 2 Þær geta myndað nánast allar þær 200 tegundir frumna sem þarf til að mynda barn, þar með talið blóðfrumur, beinfrumur og taugafrumur.

Af rannsóknum mínum á fósturvísum komst ég að þeirri niðurstöðu að lífið væri skapað.

Frumurnar þurfa að myndast af réttri tegund, í réttri röð og á réttum stöðum. Til að byrja með safnast þær í vefi sem raðast síðan saman í líffæri og útlimi. Enginn verkfræðingur getur látið sig dreyma um að búa til leiðbeiningar fyrir slíkt ferli. En uppskriftin að vexti fósturvísis er listilega skráð í DNA-sameindina. Þegar ég hugsa um hvað þetta er stórkostlegt er ég sannfærður um að lífið sé hannað af Guði.

Hvers vegna gerðist þú vottur Jehóva?

Í stuttu máli sagt var það kærleikur. Jesús Kristur sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Þessi kærleikur gerir sér ekki mannamun. Hann fer hvorki eftir þjóðerni manns, menningu né hörundslit. Ég bæði sá og fann fyrir þessum kærleika þegar ég fór að umgangast vottana.

^ 2. Vegna biblíufræddrar samvisku sinnar notar Yan-Der Hsuuw ekki stofnfrumur úr mannsfóstrum í rannsóknum sínum.