Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA

Tilgangur í lífinu

Tilgangur í lífinu

VIÐ MENNIRNIR ERUM EINSTAKIR Á MARGAN HÁTT – VIÐ SKRIFUM, MÁLUM, SKÖPUM OG VELTUM FYRIR OKKUR STÓRU SPURNINGUNUM Í LÍFINU: Hvers vegna er alheimurinn til? Hvernig urðum við til? Hver er tilgangur lífsins? Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Sumir forðast að hugsa um þessar spurningar vegna þess að þeir halda að ekki sé hægt að svara þeim. Aðrir telja að við höfum orðið til vegna tilviljunarkenndrar þróunar og því sé tilgangslaust að spyrja slíkra spurninga. „Það eru engir guðir, enginn tilgangur,“ staðhæfði William Provine, prófessor í sagnfræði og líffræði. Hann bætti við: „Það er enginn algildur siðfræðigrundvöllur til og lífið hefur ekkert eiginlegt gildi.“

Sumir sætta sig þó ekki við slíkan uppgjafaranda. Þeir taka eftir að heiminum er stjórnað af nákvæmum og snjöllum stærðfræðilögmálum. Þeir dást að stórfenglegri hönnun í náttúrunni sem menn hafa reynt að líkja eftir. Og þeir vita af fenginni reynslu að flókin smíð, sem virkar vel, er ekki afrakstur krafta sem enginn stýrir heldur bendir hún til viturs hönnuðar.

Slík rök hafa fengið ýmsa þróunarsinna til að endurskoða afstöðu sína. Skoðaðu eftirfarandi tvö dæmi.

ALEKSEJ MARNOV, TAUGASKURÐLÆKNIR. „Skólarnir, sem ég sótti, kenndu trúleysi og þróun,“ segir hann. „Hver sem trúði á Guð var álitinn fáfróður.“ En árið 1990 breyttist hugarfar Aleksejs.

Hann segir: „Ég hef alltaf reynt að finna rökréttar skýringar á hlutunum, þar á meðal því sem snertir mannsheilann. Þetta undraverða líffæri hefur réttilega verið kallað flóknasta smíð í alheiminum. En var heilinn hannaður til að safna þekkingu og færni og deyja síðan? Það virðist ekkert vit í því, það er svo órökrétt. Ég fór þess vegna að velta fyrir mér hvers vegna við erum til og hver sé tilgangur lífsins. Eftir að hafa íhugað málið vandlega komst ég að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera til skapari.“

Aleksej leitaði að tilgangi lífsins og fór þess vegna að kynna sér Biblíuna. Konan hans, sem er læknir, var einnig trúlaus. Hún fór líka að kynna sér Biblíuna. Til að byrja með ætlaði hún að sanna að eiginmaðurinn hefði rangt fyrir sér. Núna hafa þau sterka trú á Guð og vita hver er tilgangur hans með mannkynið eins og skýrt er frá í Biblíunni.

DOKTOR HUABI YIN. Hún stundaði nám í eðlisfræði og rannsakaði rafgas í mörg ár. Rafgas er talinn fjórði fasi efnis (eins og efnafasi sólarinnar) og er að miklu leyti úr rafeindum og jákvætt hlöðnum jónum.

Huabi segir: „Þegar við sem erum vísindamenn rannsökum náttúrufyrirbæri sjáum við alls staðar mikið skipulag sem stjórnað er af nákvæmum lögmálum. Ég velti fyrir mér hvernig þessi lögmál urðu til. Hver setti þau lögmál sem stjórna sólinni fyrst við þurfum að passa upp á jafnvel lítinn eld sem við matbúum við? Með tímanum komst ég að því að rökréttasta svarið er að finna í fyrstu setningu Biblíunnar: ,Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.‘“ – 1. Mósebók 1:1.

Vísindin hafa vissulega svarað því hvernig margt virkar, svo sem hvernig heilafrumurnar starfa og hvernig sólin framleiðir hita og ljós. En eins og Aleksej og Huabi komust að raun um svarar Biblían því sem skiptir enn meira máli: Hvers vegna er alheimurinn til? Hvers vegna er honum stýrt með lögmálum? Og hvers vegna erum við til?

Í Biblíunni segir um jörðina: „[Guð] skapaði hana ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega.“ (Jesaja 45:18) Guð skapaði jörðina í ákveðnum tilgangi. Sá tilgangur er nátengdur framtíðarvon okkar, eins og sjá má í næstu grein.