Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 LÖND OG ÞJÓÐIR

Heimsókn til Kamerún

Heimsókn til Kamerún

FYRSTU íbúar Kamerún voru líklega af Baka-ættbálknum en þetta voru Pygmýjar. Á 16. öld komu síðan Portúgalar til landsins. Nokkrum öldum síðar komu Fúlanar, sem voru múslímar, og lögðu undir sig norðurhluta Kamerún. Núna telja 40 prósent íbúa Kamerún sig vera kristna, 20 prósent múslíma en hin 40 prósentin stunda hefðbundna afríska trú.

Vottar Jehóva hafa gefið út biblíutengd rit á bassa, tungumáli sem er talað í Kamerún.

Fólk, sem býr á dreifbýlum svæðum í Kamerún, er einstaklega gestrisið. Gestum er tekið fagnandi og þeir eru boðnir velkomnir inn á heimilið þar sem þeim er gefinn matur og vatn að drekka. Það er talin móðgun við gestgjafann að afþakka boðið en hrós að þiggja það.

Gestir byrja á því að heilsa heimilismönnum og spyrja hvernig þeim gangi. Það er jafnvel siður að spyrja hvernig dýrunum líði. „Þegar gestur er á förum er ekki nóg að segja bara ,bless‘,“ segir Joseph  sem er innfæddur Kamerúni. „Gestgjafinn fylgir oft gestinum áleiðis og heldur áfram að ræða við hann. Einhvern tíma á leiðinni kveður hann svo gestinn og snýr heimleiðis. Þeim sem fá ekki slíkar móttökur gæti fundist þeir vera óvelkomnir.“

Kanóar, eða eintrjáningar, eru algeng sjón á Sanaga-ánni. Seglin eru gerð úr því efni sem er við hendina.

Þegar vinir hittast til að njóta máltíðar saman kemur fyrir að þeir borði af sama diskinum, meira að segja með höndunum. Í Kamerún er þessi siður sterkt einingartákn og jafnvel hefur tíðkast að nota hann til að styrkja vináttubönd sem hafa af einhverjum ástæðum veikst. Í vissum skilningi er þessi siður leið til að segja: „Friður ríkir núna milli okkar.“

Vottar Jehóva, útgefendur þessa tímarits, starfrækja meira en 300 söfnuði í Kamerún og halda um 65.000 biblíunámskeið þar í landi.