Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju er ég alltaf skilinn út undan?

Af hverju er ég alltaf skilinn út undan?

Ungt fólk spyr . . .

Af hverju er ég alltaf skilinn út undan?

„Um helgar er eins og allir í heiminum séu að gera eitthvað skemmtilegt nema ég.“ — Renee.

„Krakkarnir hittast og gera eitthvað saman en ég fæ ekki að vera með.“ — Jeremy.

VEÐRIÐ er gott og þú hefur ekkert að gera. En það hafa hins vegar allir hinir. Allir vinir þínir eru að gera eitthvað skemmtilegt. Þú varst skilinn út undan eina ferðina enn.

Það er nógu slæmt þegar manni er ekki boðið að vera með. En það sem gefið er í skyn með því er jafnvel enn verra. „Kannski er eitthvað að mér,“ hugsarðu ef til vill. „Hvers vegna vill enginn hafa mig með?“

Hvers vegna er þetta svona sárt?

Það er mjög eðlilegt að vilja tilheyra einhverjum hópi og fá viðurkenningu. Við erum félagsverur og þrífumst á samskiptum við aðra. Áður en Jehóva skapaði Evu sagði hann um Adam: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall.“ (1. Mósebók 2:18) Það er augljóst að við höfum þörf fyrir félagsskap, við erum einfaldlega þannig úr garði gerð. Og það er einmitt þess vegna sem það er svona sárt að vera skilinn út undan.

Það veldur manni sérstaklega miklum vonbrigðum að vera skilinn út undan hvað eftir annað eða fá það á tilfinninguna að maður sé ekki nógu góður fyrir þá sem mann langar til að eiga sem vini. „Meðal unga fólksins myndast oft vinahópar sem gera margt gott,“ segir ung kona að nafni Marie. „En maður veit að þeim finnst maður ekki nógu góður til að geta verið með.“ Þegar aðrir útiloka þig úr hópnum fer þér að finnast þú vera út undan og einmana.

Stundum finnst þér þú kannski vera einmana þótt þú sért í fjölmenni. „Þó að það hljómi kannski undarlega man ég eftir að í einu boði fannst mér ég vera mjög einmana,“ segir Nicole. „Það var líklega vegna þess að þó að ég væri innan um fullt af fólki fannst mér ég ekki vera náin neinu þeirra.“ Sumum finnst þeir jafnvel vera einmana á mótum. „Það er eins og allir þekki alla nema ég,“ segir Meagan. Ung kona, sem heitir Maria, er á sama máli. Hún segir: „Það er eins og ég sé umkringd vinum en eigi enga vini sjálf.“

Það finna allir einhvern tíma til einmanaleika — líka þeir sem virðast vinsælir eða hamingjusamir. „Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 14:13) Þegar einmanaleikinn ágerist getur hann dregið úr manni allan kraft. Í Biblíunni segir: „Sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.“ (Orðskviðirnir 15:13) Ef þú ert stundum dapur yfir því að vera skilinn út undan, hvað geturðu þá gert í málinu?

Að berjast gegn einmanaleikanum

Reyndu að fylgja ráðunum sem koma hér á eftir til að vinna bug á einmanaleikanum.

Horfðu á kosti þína. (2. Korintubréf 11:6) Spyrðu sjálfan þig: „Í hverju er ég góður?“ Hugsaðu um hvaða hæfileika þú hefur eða góða eiginleika og skrifaðu þá hér fyrir neðan.

․․․․․

Þegar þér finnst þú vera skilinn út undan skaltu rifja upp hvaða kosti þú hefur — eins og þá sem þú skrifaðir hér fyrir ofan. Þú hefur vissulega einhverja veikleika og þú ættir að vinna í því að laga þá. En láttu þá ekki buga þig. Reyndu frekar að líta á sjálfan þig sem verkefni í vinnslu. Það er kannski ekki allt eins og það á að vera en sumt er í góðu lagi. Einbeittu þér að þeim þáttum.

Reyndu að kynnast fleirum. (2. Korintubréf 6:11-13) Eigðu frumkvæðið að því að kynnast fólki. Það er vissulega ekki alltaf auðvelt. „Það getur virst erfitt að komast inn í ákveðinn hóp,“ segir Liz, sem er 19 ára, „en ef maður fer bara og talar við einn úr hópnum er maður allt í einu kominn inn í hópinn.“ (Sjá rammagreinina „Ráð til að hefja samræður“.) Gættu þess líka að þú sért ekki að skilja einhvern út undan — til dæmis þá sem eru eldri en þú. „Þegar ég var 10 eða 11 ára átti ég vinkonu sem var miklu eldri en ég,“ segir Cori, sem er 17 ára. „Við vorum mjög nánar þrátt fyrir aldursmuninn.“

Skrifaðu niður tvo fullorðna í söfnuðinum sem þig langar til að kynnast betur.

․․․․․

Hvers vegna ekki að heilsa öðrum þeirra á næstu safnaðarsamkomu? Bryddaðu upp á samræðum. Þú gætir til dæmis spurt hvað það var sem kveikti áhuga hans á Biblíunni. Því meira sem þú leggur þig fram um að kynnast öllum innan ‚bræðrafélagsins‘ þeim mun minni líkur eru á að þú verðir einmana eða að þér finnist þú vera skilinn út undan. — 1. Pétursbréf 2:17.

Segðu einhverjum fullorðnum hvernig þér líður. (Orðskviðirnir 17:17) Þú getur dregið úr einmanakenndinni með því að tala við foreldra þína eða einhvern fullorðinn og segja þeim hvernig þér líður. Ein stelpa, sem er 16 ára, komst að raun um þetta. Til að byrja með hafði hún of miklar áhyggjur af því að vera skilin út undan. „Ég fór að hugsa um hvað hefði gerst sem leiddi til þess að mér fannst ég vera skilin út undan,“ segir hún. „Ég fór yfir það í huganum aftur og aftur. En síðan talaði ég við mömmu um þetta og hún sagði mér hvað ég gæti gert í málinu. Það hjálpaði mér mjög mikið að tala um það hvernig mér leið.“

Til hvers gætirðu leitað ef þú þarft að tala við einhvern um þráláta einmanakennd?

․․․․․

Hugsaðu um aðra. (1. Korintubréf 10:24) Í Biblíunni segir að við ættum „ekki aðeins [að líta] á eigin hag, heldur einnig annarra“. (Filippíbréfið 2:4) Maður getur auðveldlega orðið niðurdreginn og dapur þegar maður er skilinn út undan. En í stað þess að sökkva æ dýpra niður í vonleysi gæti verið gott að gera eitthvað fyrir aðra. Kannski gæti einhver þegið aðstoð þína og í leiðinni eignastu ef til vill nýjan vin.

Dettur þér einhvern í hug, kannski innan fjölskyldunnar eða í söfnuðinum, sem gæti þegið félagsskap þinn eða einhverja aðstoð. Skrifaðu nafn viðkomandi hér fyrir neðan og hvernig þú gætir hjálpað honum.

․․․․․

Þegar þú hugsar um aðra en sjálfan þig og gerir eitthvað fyrir þá hefurðu ekki eins mikinn tíma til að finna til einmanaleika. Það getur haft jákvæð áhrif á viðhorf þín og framkomu og gert þig að aðlaðandi vini. Í Orðskviðunum 11:25 segir: „Sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“

Vandaðu valið. (Orðskviðirnir 13:20) Það er betra að eiga fáa góða vini sem þykir vænt um þig en að eiga margra falsvini sem geta komið þér í klandur. (1. Korintubréf 15:33) Samúel, sem sagt er frá í Biblíunni, er gott dæmi um þetta. Það er ekki ólíklegt að honum hafi fundist svolítið einmanalegt í tjaldbúðinni. Samstarfsmenn hans voru Hofní og Pínehas. Þeir voru ekki góður félagsskapur því að þótt þeir væru synir æðsta prestsins hegðuðu þeir sér mjög illa. Ef Samúel hefði reynt að falla í kramið hefði það getað stórskaðað samband hans við Jehóva. En Samúel vildi það svo sannarlega ekki. Í Biblíunni segir: „Sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum.“ (1. Samúelsbók 2:26) Hvaða mönnum? Ekki þeim Hofní og Pínehasi sem líklega hafa sniðgengið hann vegna góðrar hegðunar. Nei, góðir eiginleikar Samúels gerðu hann aðlaðandi í augum þeirra sem fylgdu lögum Guðs. Þú ættir að sækjast eftir að eignast vini sem elska Jehóva.

Vertu jákvæður. (Orðskviðirnir 15:15) Öllum finnst þeir vera út undan öðru hverju — að minnsta kosti að einhverju marki. Hvað getur hjálpað? Í stað þess að dvelja við neikvæðar hugsanir skaltu reyna að hafa jákvæða sýn á lífið. Mundu að þótt þú getir ekki stjórnað hverju smáatriði í lífinu geturðu stjórnað því hvernig þú bregst við hlutunum.

Þegar þér finnst þú vera skilinn út undan skaltu annaðhvort reyna að gera eitthvað jákvætt til að breyta stöðunni eða breyta því hvernig þú lítur á málin. Og mundu að Jehóva veit hvernig við erum gerð, þannig að hann þekkir þarfir okkar og veit hvernig best er að uppfylla þær. Talaðu um málið við Jehóva í bæn, ekki síst ef þú heldur áfram að finna til einmanaleika. Þú getur verið viss um að „hann mun bera umhyggju fyrir þér“. — Sálmur 55:22, 23.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr. . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvað get ég gert ef mér finnst ég vera skilinn út undan?

◼ Hvaða ritningarstaðir geta hjálpað mér að sjá sjálfan mig í réttu ljósi í stað þess að láta neikvæðar hugsanir gagntaka mig?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

Ráð til að hefja samræður

Brostu. Hlýlegt bros þitt hefur þau áhrif að fólki langar til að tala við þig.

Kynntu þig. Segðu hvað þú heitir og hvaðan þú ert.

Spyrðu spurninga. Spyrðu viðeigandi spurninga um bakgrunn viðkomandi án þess að vera of nærgöngull.

Hlustaðu. Ekki vera að hugsa um hvað þú ætlar að segja næst. Beindu frekar athyglinni að því að hlusta. Næsta spurning eða athugasemd kemur þá af sjálfu sér.

Slakaðu á. Njóttu þess að spjalla við aðra, það getur verið upphafið að nýjum vinskap.