Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segir Biblían um vatnsskortinn í heiminum?

Hvað segir Biblían um vatnsskortinn í heiminum?

 Hreint vatn er okkur öllum lífsnauðsynlegt. António Guterras, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því að „þörfin fyrir vatn haldi áfram að aukast og því stöndum við frammi fyrir alvarlegri vatnskreppu“. Milljarðar jarðarbúa víðsvegar í heiminum búa nú þegar við skort á drykkjarhæfu vatni.

Strdel/AFP via Getty Images

 Verður einhvern tíma nóg vatn fyrir alla? Eða munum við alltaf þurfa að glíma við vatnsskort? Hvað segir Biblían um málið?

Það sem Biblían lofar um vatnsforðann

 Biblían segir að sá dagur komi að vatnsskortur verði úr sögunni, að það verði nóg af hreinu ferskvatni.

 „Vatn sprettur fram í óbyggðunum og ár streyma um eyðisléttuna. Sviðin jörðin verður að seftjörn og þyrst jörðin að uppsprettum.“ – Jesaja 35:6, 7.

 Hvers vegna getum við treyst þessu loforði Biblíunnar? Hugleiddu hvað Biblían segir um einn þátt í því hvernig hnötturinn okkar er hannaður.

Hvað segir Biblían um jörðina og hringrás vatnsins?

 „[Guð] skapaði [jörðina] ekki til einskis heldur til að hún væri byggð.“ – Jesaja 45:18.

 Guð skapaði jörðina til að viðhalda lífi og þess vegna kom hann á náttúrulegum ferlum til að sjá fyrir gnægð af ferskvatni.

 „[Guð] dregur upp vatnsdropana, þeir þéttast úr þokunni og mynda regn. Það streymir niður úr skýjunum og fellur yfir mennina.“ – Jobsbók 36:27, 28.

 Þessi vers lýsa með einföldu orðalagi hvernig Guð sá fyrir áreiðanlegum og sjálfbærum vatnsforða með hringrás vatnsins. Vatnið gufar upp af landi og sjó, þéttist og fellur niður sem regn og sér þannig fyrir stöðugum forða af ferskvatni fyrir menn og dýr. – Prédikarinn 1:7; Amos 5:8.

 ‚Ég gef ykkur regn á réttum tíma og landið mun gefa afurðir sínar og trén ávöxt sinn.‘ – 3. Mósebók 26:4.

 Ísraelsmenn til forna voru akuryrkjuþjóð. Guð lofaði að blessa þá með góðum afurðum með því að gefa þeim regn á réttum tíma. Hann veit að góð uppskera byggir á fyrirsjáanlegri regntíð.

 Bráðlega mun Guð gera fyrir alla jörðina það sem hann gerði fyrir Ísraelesmenn til forna. (Jesaja 30:23) En fram að þeim tíma er vaxandi vatnsskortur víða um heim og minni úrkoma er bara hluti vandans. Hvað segir Biblían þar að auki um lausn þessa vanda?

Hvernig verður bundinn endi á vatnsskortinn?

 Biblían segir okkur að Guð muni nota ríki sitt til að leysa vandamálin sem hrjá plánetuna okkar, þar á meðal vatnsskortinn. (Matteus 6:9, 10) Guðsríki er himnesk stjórn sem mun ríkja yfir jörðinni. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15) Guðsríki mun þar að auki gera það sem stjórnir manna eru ófærar um – uppræta orsakir vandans.

 Vandamál: Lofslagsbreytingar stuðla að alvarlegu ójafnvægi í hringrás vatnsins. Afleiðingarnar eru miklir þurrkar og stórflóð sem stafa ýmist af steypiregni eða hækkun sjávarborðsins.

 Lausn: Guðsríki mun sjá til þess að jörðin endurheimti jafnvægi sitt þannig að hún nái sér á ný. Guð lofar: „Ég geri alla hluti nýja.“ (Opinberunarbókin 21:5) Þar sem nú er sviðin jörð verður nóg af fersku vatni þannig að líf mun dafna á stöðum sem nú eru óbyggilegir. (Jesaja 41:17–20) Guðsríki í höndum Jesú Krists mun líka hafa stjórn á náttúruöflunum.

 Þegar Jesús var á jörðinni lægði hann ógnvekjandi storm og þannig gaf hann innsýn í máttinn sem Guð hafði gefið honum. (Markús 4:39, 41) Þegar Kristur verður konungur Guðsríkis munu náttúruhamfarir heyra sögunni til. Fólk mun njóta friðar og öryggis og verða laust við hvers kyns hörmungar.

 Vandamál: Skammsýnir menn og gráðug stórfyrirtæki menga ár, vötn og vatnsból og auka þannig á vatnsskortinn.

 Lausn: Guð mun hreinsa jörðina og þá munu árnar, vötnin, höfin og jarðvegurinn ná sér á ný. Jörðin verður paradís. Biblían lýsir þessu á ljóðrænan hátt: „Óbyggðirnar og skrælnað landið munu fagna, eyðisléttan gleðjast og blómstra eins og saffrankrókus.“ – Jesaja 35:1.

 Hvað verður um þá sem bera enga virðingu fyrir umhverfinu eða samborgurum sínum? Guð lofar að „eyða þeim sem eyðileggja jörðina“. – Opinberunarbókin 11:18, neðanmáls; Orðskviðirnir 2:21, 22.

 Vandamál: Léleg stjórnun á vatnsbirgðum leiðir til þess að þær eyðast hraðar en þær endurnýjast.

 Lausn: Sem betur fer er það vilji Guðs sem verður á jörð en ekki vilji eigingjarnra manna. (Matteus 6:9, 10) Ríki Guðs veitir þegnum sínum á jörðinni bestu menntun sem völ er á. Jesaja 11:9 segir: „Jörðin verður full af þekkingu á Jehóva.“ a Með þessa æðri þekkingu að leiðarljósi, auk innilegs kærleika til Guðs og allrar sköpunar hans, mun mannkynið annast okkar fallegu jörð og allar auðlindir hennar.

  •    Til að fá frekari upplýsingar um það sem Guðsríki mun áorka sjá greinina „Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?

  •    Flettu upp Jesaja kafla 35 og lestu þar hvernig jörðinni verður breytt í paradís.

  •    Horfðu á myndbandið Hvers vegna skapaði Guð jörðina? til að fræðast um tilgang Guðs með jörðina og mannkynið.

a Jehóva er nafn Guðs í Biblíunni. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?