Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig gat vinur minn sært mig?

Hvernig gat vinur minn sært mig?

KAFLI 10

Hvernig gat vinur minn sært mig?

„Kerry var góð vinkona mín. Ég sótti hana í vinnuna á hverjum degi þar sem hún átti ekki bíl. En fljótlega fékk ég á tilfinninguna að hún væri að notfæra sér mig.

Þegar hún kom inn í bílinn var hún yfirleitt upptekin við að tala í símann eða senda SMS-skilaboð. Hún þakkaði aldrei fyrir farið og hætti að taka þátt í bensínkostnaðinum. Og hún talaði alltaf um eitthvað neikvætt. Ég varð reið við sjálfa mig fyrir að hafa sætt mig við þessa framkomu svona lengi.

Dag einn útskýrði ég kurteislega fyrir Kerry að ég gæti ekki lengur sótt hana í vinnuna. Ég hef ekkert heyrt í henni eftir það sem sannfærir mig enn betur um að hún hafi bara verið vinkona mín af eigingjörnum hvötum. Og það er mjög særandi!“ — Nicole.

ÞETTA getur gerst hjá bestu vinum. Einn daginn eru þeir óaðskiljanlegir en næsta dag talast þeir ekki einu sinni við. Hvernig getur góð vinátta breyst svona skyndilega?

● Allt breyttist hjá Jeremy þegar góður vinur hans fluttist um 1600 km í burtu. „Eftir að hann flutti heyrði ég aldrei í honum,“ segir Jeremy, „og það særði mig mjög.“

● Karen tók eftir að besta vinkona hennar fór að breytast. „Ég hafði áhyggjur af því hvernig hún talaði og kom fram,“ segir Karen. „Hún varð mjög neikvæð og gerði lítið úr hlutum sem skiptu mig máli. Þegar við reyndum að ræða málin sagði hún að ég vildi alltaf hafa rétt fyrir mér og ég stæði ekki með henni. Hún sagði að vinátta okkar hefði neikvæð áhrif á sig.“

● Samband Gloriu við bestu vinkonu sína endaði fyrirvaralaust og án útskýringar. „Fyrst kom okkur mjög vel saman,“ segir Gloria, „og hún sagði að ég væri henni eins og systir. En síðan alveg upp úr þurru hætti hún að vera með mér og kom bara með einhverjar lélegar afsakanir.“

● Vandræðin á milli Lauru og Dariu byrjuðu þegar Daria stal kærastanum hennar Lauru. „Hún talaði við hann í síma í marga klukkutíma þótt hún vissi að við værum saman,“ segir Laura. „Besta vinkona mín sveik mig og ég missti hugsanlegan eiginmann — og það samtímis!“

Hvað fór úrskeiðis?

Allir gera mistök. Þess vegna má alveg búast við því að fyrr eða síðar segi eða geri vinur þinn eða vinkona eitthvað sem særi þig. Og ef þú hugsar málið hefur þú örugglega einhvern tíma sært aðra. (Prédikarinn 7:22) „Við erum öll ófullkomin og pirrum hvert annað af og til,“ segir stelpa sem heitir Lísa. Ef um minniháttar misskilning er að ræða er oftast hægt að laga málin með því að tala saman.

En stundum stafar missætti milli vina ekki aðeins af einu atviki. Þið áttið ykkur kannski á því að þið eigið ekki eins margt sameiginlegt og áður. Mundu að eftir því sem þú eldist breytast áhugamálin — líka hjá vini þínum. Hvað geturðu gert þegar þú finnur að þú og vinur þinn eruð að fjarlægjast?

Að laga vináttuna

Hefurðu einhvern tíma rifið uppáhaldsflíkina þína? Hvað gerðirðu? Hentirðu henni eða reyndirðu að gera við hana? Það fór örugglega mikið eftir því hversu skemmd flíkin var og hve mikið þú hélst upp á hana. Ef þér þótti mjög vænt um flíkina reyndirðu örugglega allt til að gera við hana. Stundum er líka hægt að laga vinskap þótt eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það veltur samt mikið á því hvað gerðist og hversu mikils virði vináttan er þér. *

Ef vinur eða vinkona hefur til dæmis sært þig með orðum eða verkum gætirðu reynt að umbera það með því að fylgja ráðunum í Sálmi 4:5: „Hugleiðið þetta í hvílum yðar og verið hljóðir.“ Hugsaðu þig því vel um áður en þú gefur vinskapinn upp á bátinn. Var þetta viljandi gert? Ef þú ert ekki viss, af hverju leyfirðu vini þínum ekki að njóta vafans? Í mörgum tilfellum geturðu látið ,kærleikann hylja fjölda synda‘. — 1. Pétursbréf 4:8.

Þú gætir líka athugað hvort þú hafir átt einhverja sök í málinu. Ef vinur þinn hefur til dæmis brugðist trúnaði þínum hefðirðu kannski ekki átt að íþyngja honum með þessum upplýsingum til að byrja með. Þú gætir líka spurt þig hvort þú ýtir undir að gert sé grín að þér — kannski með því að tala heimskulega eða allt of mikið. (Orðskviðirnir 15:2) Ef svo er skaltu spyrja þig: Þarf ég að gera einhverjar breytingar svo að vinur minn eða vinkona beri meiri virðingu fyrir mér?

„Getum við talað um það sem gerðist?“

En hvað ef þú getur ekki gleymt því sem gerðist? Þá er líklega best fyrir þig að tala við vin þinn. En ekki gera það þegar þú ert í uppnámi. Í Biblíunni segir: „Bráðlyndur maður vekur deilur en sá sem seinn er til reiði stillir þrætur.“ (Orðskviðirnir 15:18) Bíddu því þar til þú hefur róað þig niður áður en þú reynir að leysa málið.

Þegar þú síðan talar við vin þinn eða vinkonu skaltu muna að markmiðið er ekki að gjalda „illt fyrir illt“ heldur að koma málum á hreint og laga vinskapinn. (Rómverjabréfið 12:17; Sálmur 34:15) Talaðu þess vegna frá hjartanu. Þú gætir sagt: „Við höfum verið vinir í nokkurn tíma. Getum við talað um það sem gerðist?“ Þegar þú veist hvað olli vandamálinu getur verið auðveldara að bæta vináttuna. Og þótt vinurinn vilji ekki tala um málið þá veistu að þú hefur reynt þitt til að koma á friði.

Að lokum er gott að vita að þótt til séu „vinir sem bregðast“ er líka til „vinur sem reynist tryggari en bróðir“. (Orðskviðirnir 18:24) Það er staðreynd að stundum slettist upp á vinskapinn hjá jafnvel bestu vinum. Þegar það gerist skaltu gera allt sem þú getur til að laga vináttuna. Að vera fús til að leysa úr ágreiningi er gott merki um að þú sért að verða þroskaður fullorðinn einstaklingur.

LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 8 Í 1. BINDI BÓKARINNAR

Í NÆSTA KAFLA

Sumir jafnaldrar þínir eyða mörgum klukkutímum í að tala við fólk á Netinu. Hvað er svona spennandi við það?

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Sumir félagar eru ekki þess virði að eiga sem nána vini. Það á sérstaklega við ef þeir hegða sér ekki lengur í samræmi við kristnar lífsreglur. — 1. Korintubréf 5:11; 15:33.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ — Rómverjabréfið 12:18.

RÁÐ

Flýttu þér ekki um of að draga ályktanir. Leyfðu vini þínum eða vinkonu fyrst að segja sína hlið á málinu. — Orðskviðirnir 18:13.

VISSIR ÞÚ . . .?

Í heilbrigðu vinasambandi gefur fólk hvert öðru ákveðið svigrúm. (Orðskviðirnir 25:17) Það getur hins vegar kæft vináttuna ef maður er of frekur á tíma og athygli vinar síns.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef ég þarf að tala við vin eða vinkonu sem hefur sært mig gæti ég byrjað á því að segja ․․․․․

Þótt ég sé sár út af einhverju sem vinur minn eða vinkona gerði ætla ég að reyna að halda friðinn með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

Af hverju fjarlægjast vinir stundum hver annan?

Hvers konar móðgun gætirðu horft fram hjá en hvers konar móðgun þyrftirðu að ræða um við vin þinn?

Hvaða lærdóm geturðu dregið af því ef vinur þinn særir þig?

Hvað geturðu gert til að draga úr líkunum á því að vinur særi þig?

[Innskot á bls. 95]

„Ef ég gæti byrjað upp á nýtt myndi ég ekki gera kröfur um að vináttan yrði fullkomin. Ég myndi hlusta betur og styðja vin minn og ekki gera svona mikið úr göllum hans. Ég skil núna að það styrkir vináttuna að takast á við erfiðleika og vandamál.“ — Keenon

[Mynd á bls. 94]

Það má líkja missætti milli vina við saumsprettu í fatnaði — bæði má laga.