Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1

Nafn Guðs í Gamla testamentinu

Nafn Guðs í Gamla testamentinu

Nafn Guðs ritað með fornhebresku letri sem var notað fyrir útlegðina í Babýlon.

Nafn Guðs ritað með hebresku letri sem var notað eftir útlegðina í Babýlon.

Nafn Guðs, sem ritað er með hebresku samhljóðunum יהוה, stendur næstum 7.000 sinnum í hinu svonefnda Gamla testamenti, þeim hluta Biblíunnar sem er að mestu leyti ritaður á hebresku. Á ýmsum erlendum málum er það nefnt tetragrammaton sem kalla mætti „fjórstafanafnið“ á íslensku. Í New World Translation of the Holy Scriptures eru þessir fjórir bókstafir þýddir með nafninu Jehóva. Þetta er langalgengasta nafnið sem er að finna í Biblíunni. Innblásnir biblíuritarar nota marga titla til að lýsa Guði, svo sem „Almáttugur Guð“, „Hinn hæsti“ og „Drottinn“, en fjórstafanafnið er eina eiginnafnið sem þeir nota um Guð.

Það var undir handleiðslu Jehóva Guðs sjálfs sem biblíuritararnir skrifuðu nafn hans. Til dæmis innblés hann Jóel spámanni að skrifa: „Hver sem ákallar nafn Drottins [„Jehóva“, NW] verður hólpinn.“ (Jóel 3:5) Og sálmaskáldi var innblásið að skrifa: „Svo að þeir játi að þú, sem berð nafnið Drottinn [„Jehóva“, NW], þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ (Sálmur 83:19) Reyndar stendur nafn Guðs um 700 sinnum í Sálmunum, safni ljóða sem þjónar Guðs áttu að syngja eða fara með. Hvers vegna er nafn Guðs þá ekki að finna í mörgum þýðingum Biblíunnar? Af hverju er myndin „Jehóva“ notuð í New World Translation? Og hvað merkir nafnið Jehóva?

Úr einum af sálmunum í Dauðahafshandriti frá fyrri helmingi fyrstu aldar e.Kr. Textinn er ritaður með hebresku letri eins og notað var eftir útlegðina í Babýlon en fjórstafanafnið er ritað með fornhebresku letri og sker sig því úr.

Hvers vegna er nafnið ekki að finna í mörgum þýðingum Biblíunnar? Ástæðurnar eru af ýmsu tagi. Sumir telja að alvaldur Guð þurfi ekki að auðkenna sig með sérstöku nafni. Aðrir virðast hafa orðið fyrir áhrifum af þeirri erfðavenju Gyðinga að forðast að nefna nafnið, hugsanlega af ótta við að vanhelga það. Og því er líka haldið fram að það sé betra að nota bara titla eins og „Drottinn“ og „Guð“ fyrst ekki sé vitað með vissu hvernig nafnið var borið fram. En þessi rök geta varla talist góð og gild. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

  • Þeir sem halda því fram að alvaldur Guð þurfi ekki að auðkenna sig með sérstöku nafni líta fram hjá því að nafn hans stendur í fornum handritum Biblíunnar, og sum þeirra eru frá því fyrir daga Krists. Eins og áður er nefnt lét Guð skrá nafn sitt um 7.000 sinnum í orð sitt, Biblíuna. Hann vill því greinilega að við vitum hvað hann heitir og notum nafn hans.

  • Þýðendur, sem fella nafnið niður í virðingarskyni við erfðavenju Gyðinga, loka augunum fyrir mikilvægri staðreynd. Þó svo að sumir fræðimenn Gyðinga hafi ekki viljað taka sér nafnið í munn létu þeir það ekki hverfa úr handritum Biblíunnar. Nafnið stendur víða í fornum handritum sem fundust í Kúmran við Dauðahaf. Sumir biblíuþýðendur gefa til kynna að nafn Guðs standi í frumtextanum með því að setja titilinn „DROTTINN“ með upphafsstöfum í staðinn fyrir nafnið. En þeirri spurningu er ósvarað hvers vegna þessir sömu þýðendur, sem viðurkenna að nafnið standi mörg þúsund sinnum í biblíutextanum, telja sér frjálst að fjarlægja það eða nota titil í stað þess. Hvar telja þeir sig hafa fengið leyfi til að gera slíka breytingu á texta Biblíunnar? Aðeins þeir geta svarað því.

  • Þeir sem halda því fram að ekki skuli nota nafn Guðs vegna þess að óvíst sé hvernig það var borið fram, hika ekki við að nefna Jesú með nafni. Lærisveinar hans á fyrstu öld báru þó nafn hans fram allt öðruvísi en flestir kristnir menn gera nú á dögum. Kristnir Gyðingar báru nafnið sennilega fram Jeshúʹa. Og titillinn „Kristur“ var borinn fram Mashíʹach, það er að segja „Messías“. Grískumælandi kristnir menn notuðu nafnið Jesúsʹ Kristosʹ, og kristnir menn, sem töluðu latínu, rituðu Iesus Christus. Grísk þýðing þessa nafns var skráð í Biblíuna vegna innblásturs, og af því má sjá að kristnir menn á fyrstu öld tóku þá skynsamlegu stefnu að nota þá mynd nafnsins sem var algeng á þeirra máli. Þýðingarnefnd New World Translation telur rökrétt að nota ritháttinn „Jehóva“ þó svo að nafn Guðs hafi ekki verið borið nákvæmlega þannig fram á fornhebresku.

Hvers vegna er rithátturinn Jehóva notaður í New World Translation? Fjórstafanafnið )‏יהוה(‏ er umritað með samhljóðunum JHVH á íslensku. Nafnið var ritað án sérhljóða en þannig var fornhebreska skrifuð. Meðan málið var í almennri notkun var sérhljóðunum einfaldlega bætt við í upplestri.

Um þúsund árum eftir að ritun Gamla testamentisins lauk þróuðu fræðimenn Gyðinga kerfi framburðartákna í hebreskum texta til að sýna hvaða sérhljóð ætti að lesa. Þegar þar var komið sögu hafði sú hjátrú skapast meðal Gyðinga að það væri rangt að segja nafn Guðs upphátt svo að þeir notuðu önnur orð sem staðgengla nafnsins. Þegar þeir afrituðu fjórstafanafnið virðast þeir hafa tekið sérhljóða staðgenglanna og raðað þeim með samhljóðunum fjórum sem nafn Guðs var ritað með. Handrit með þessum sérhljóðatáknum duga því skammt til að ákvarða hvernig nafnið var upphaflega borið fram á hebresku. Sumir telja að það hafi verið borið fram „Jahve“ en ýmsar aðrar hugmyndir hafa einnig verið settar fram. Meðal Dauðahafshandritanna eru kaflar úr 3. Mósebók á grísku þar sem nafnið er umritað Jao. Grískir ritarar settu auk þess fram tillögur að framburði eins og Jae, Jabe og Jaúe. En það er engin ástæða til að vera kreddufastur í þessu máli. Við vitum hreinlega ekki hvernig þjónar Guðs forðum daga báru nafn hans fram á hebresku. (1. Mósebók 13:4; 2. Mósebók 3:15) Hitt vitum við að Guð nefndi nafn sitt æ ofan í æ í samskiptum við þjóna sína, að þeir ávörpuðu hann með því nafni og að þeir notuðu það óspart í samræðum. – 2. Mósebók 6:2; 1. Konungabók 8:23; Sálmur 99:9.

Hvers vegna er þá framburðarmyndin „Jehóva“ notuð í New World Translation? Það er vegna þess að hún á sér langa sögu í ensku og fjölda annarra tungumála.

William Tyndale þýddi Mósebækurnar fimm árið 1530. Hér má sjá nafn Guðs í 1. Mósebók 15:2.

Eiginnafn Guðs kemur fyrst fyrir í enskri biblíu árið 1530, það er að segja í þýðingu Williams Tyndales á Mósebókunum fimm. Hann stafsetti nafnið „Iehouah“. Ýmsir aðrir þýðendur á sextándu öld stafsettu nafnið með svipuðum hætti þegar þeir þýddu Biblíuna á önnur helstu mál Evrópu. Nefna má Sebastian Münster (á latínu árið 1534), Pierre-Robert Olivétan (á frönsku árið 1535), Antonio Brucioli (á ítölsku árið 1540) og Casiodoro de Reina (á spænsku árið 1569).

Virtur biblíufræðingur, Joseph Bryant Rotherham, notaði ritháttinn „Jehovah“ en ekki „Yahweh“ í verki sínu Studies in the Psalms sem kom út árið 1911. Hann kvaðst vilja nota „rithátt sem almennir lesendur Biblíunnar þekktu vel (og væri fullkomlega boðlegur)“. Árið 1930 sagði fræðimaðurinn A. F. Kirkpatrick eitthvað svipað um ritháttinn „Jehovah“: „Málfræðingar okkar daga halda því fram að lesa beri Yahveh eða Yahaveh en JEHOVAH virðist eiga sér djúpar rætur í enskri tungu, og aðalatriðið er ekki að bera nafnið nákvæmlega rétt fram heldur viðurkenna að það sé sérnafn en ekki samnafn og titill eins og ,Drottinn‘.“

Fjórstafanafnið JHVH: „hann lætur verða“.

Sögnin HVH: „að verða“.

Hvað merkir nafnið Jehóva? Í hebresku er nafnið dregið af sagnorði sem merkir „að verða“, og margir fræðimenn telja það vera eins konar orsakarmynd þess. Þýðingarnefnd New World Translation telur að nafn Guðs merki „hann lætur verða“. Skoðanir fræðimanna eru þó skiptar og við getum ekki haldið því fram með öruggri vissu að þetta sé merkingin. Þessi skilgreining kemur þó vel heim og saman við það hlutverk Jehóva að vera skapari allra hluta og láta vilja sinn ná fram að ganga. En hann skapaði ekki aðeins alheiminn og vitsmunaverur heldur vinnur hann jafnt og þétt að því að láta vilja sinn og fyrirætlun ná fram að ganga, hvað sem á dynur.

Merking nafnsins Jehóva takmarkast því ekki við skylt sagnorð sem er að finna í 2. Mósebók 3:14. Þar stendur: „Ég verð sá sem ég kýs að verða“ eða „ég verð sá sem ég verð“. (NW) Í strangasta skilningi duga þessi orð ekki fyllilega til að skilgreina nafn Guðs. Þau opinbera öllu heldur ákveðinn þátt í persónuleika hans. Þau sýna að hann verður það sem þarf undir öllum kringumstæðum til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. Nafnið Jehóva felur í sér þessa hugmynd en er ekki takmarkað við það sem hann kýs sjálfur að verða. Það felur einnig í sér að hann geti látið sköpunarverkið verða hvaðeina sem þarf til að fyrirætlun hans nái fram að ganga.